Um 323.000 farandverkamenn búa og starfa í Singapúr og 47% þeirra hafa smitast. Til samanburðar má nefna að aðeins 4.000 heimamenn hafa greinst með Covid-19 og 11% íbúa Lundúna.
Smitin sem áður hafði verið sagt frá greindust við skimun vegna Covid-19 en 98.000 reyndust hafa mótefni við sjúkdómnum, sem þýðir að þeir höfðu þegar fengið hann. Enn á eftir að birta niðurstöður mótefnamælinga 65.000 farandverkamanna.
„Þessar tölur koma okkur ekki á óvart,“ sagði Alex Au, hjá góðgerðasamtökunum Transient Workers Count Too,“ í samtali við BBC. „Um mitt ár sögðu þeir sem voru að greinast smitaðir að þeim hefði verið sagt að dvelja í herbergjum sínum og ekki verið settir í einangrun. Þeir voru áfram í návígi við herbergisfélaga sína.“

„Farið með þá eins og fanga“
Farandverkamennirnir koma flestir frá Suður-Asíu og starfa við húsbyggingar og frameiðslu. Au segir tölurnar gamla sögu; hann hafi meiri áhyggjur af því að jafnvel þótt engin smit greindust nú væri verkamönnunum enn gert að dvelja aðeins á herbergjum sínum þegar þeir væru ekki við vinnu og bannað að vera meðal almennings.
Au sagði takmarkanirnar ástæðulausar; smitstuðullinn væri nú nær núlli og verkamennirnir skimaðir á tveggja vikna fresti.
„Verkamennirnir eru enn innilokaðir og farið með þá eins og fanga; þeir eru notaðir til vinnu án þess að hafa frelsi til að fara um,“ segir Au.
Yfirvöld sögðu á mánudag að takmörkunum yrði smám saman aflétt, nú þegar tekist hefði að ná tökum á faraldrinum.
Gert er ráð fyrir að hluta hópsins verði heimilað að fara um meðal almennings einu sinni í mánuði eftir áramót, að því gefnu að þeir beri rakningabúnað og fari eftir sóttvarnareglum.