Innlent

Not­færði sér fá­kunn­áttu aldraðrar frænku til að ná út 30 milljónum í reiðu­fé

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Landsréttur.
Landsréttur. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest dóm yfir konu sem var í héraði fundin sek um að hafa notfært sér einfeldni og fákunnáttu aldraðrar frænku sinnar til að verða sér úti um tugi milljóna króna. Konan hlaut í Héraðsdómi Norðurlands eystra fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í fyrra sem Landsréttur hefur nú staðfest.

Konan var ákærð fyrir fjársvik en til vara fyrir misneytingu með því að hafa með blekkingum fengið frænkuna til að láta sig hafa 30 milljónir króna sem ætlaðar voru til fasteignakaupa. Afhending peningana fór þannig fram að aldraða frænkan fékk peningana í innsigluðum búntum í útibúi Arion banka á Akureyri í mars 2017 og gekk með þá úr bankanum í plastpoka. Þar beið yngri frænkan, tók við peningunum og setti þá í bankahólf í útibúi Landsbankans á Akureyri.

Peningana notaði hún aftur á móti ekki til íbúðakaupa heldur byrjaði hún að nota þá í aðra neyslu á borð við bíla- og tölvukaup. Frænkan leit svo á að um lán hafi verið að ræða en yngri frænkan kvaðst telja að um gjöf væri að ræða.

„Ákærðu og brotaþola ber ekki saman um hvort þær 30 milljónir króna sem ákærða fékk frá brotaþola hafi í upphafi verið hugsaðar sem gjöf eða lán, þótt óumdeilt sé að brotaþoli hafi síðar sagst líta á fjárhæðina sem lán og þær undirritað handskrifað skjal um lán þeirra á milli,“ segir í niðurstöðum dóms Landsréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×