Erlent

Trump segir Rudy Giuliani kominn með Covid-19

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Trump
Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Trump AP/Jacqueline Larma

Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta og fyrrverandi borgarstjóri New York, hefur greinst með Covid-19. Frá þessu greinir Trump á Twitter.

Giuliani, sem er 76 ára, hefur verið í fararbroddi baráttu Trumps fyrir því að snúa við niðurstöðum forsetakosninganna fyrir mánuði. Ekki kemur fram í tísti Trump hvenær Giuliani greindist eða hvort hann væri með einkenni.

„Rudy Giuliani, langbesti borgarstjóri New York fyrr og síðar, og sá sem hefur verið óþreytandi í baráttunni að koma upp um langspilltustu kosningar í sögu Bandaríkjanna hefur greinst með Kína-vírusinn,“ segir Trump og notaði umdeilt orð yfir kórónuvírusinn.

„Góðan bata Rudy, við höldum baráttunni áfram.“

Færslu Trump má sjá að neðan.

Trump greindist sjálfur með Covid-19 í október og dvaldi í þrjá daga á sjúkrahúsi í nágrenni Washington DC.

Að minnsta kosti fjörutíu manns í nærumhverfi Trump hafa greinst með Covid-19 síðan í lok september. Þeirra á meðal Melania Trump forsetafrú, sonur hennar Barron, Donald Trump yngri auk ráðgjafa og repúblikana.

Samkvæmt Johns Hopkins sjúkrahúsinu greindust tæplega 214 þúsund smitaðir vestanhafs í gær. 2254 létu lífið í gær í Bandaríkjunum af völdum Covid-19. Alls hafa rúmlega 280 þúsund manns vestan hafs látist og 14,6 milljónir smitast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×