Íslenski boltinn

Varnar­maður KR eftir­sóttur af liðum í Sví­þjóð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Finnur Tómas gæti verið á leið til Svíþjóðar.
Finnur Tómas gæti verið á leið til Svíþjóðar. Vísir/Bára

Finnur Tómas Pálmason, miðvörður KR, er á óskalista tveggja liða í sænsku úrvalsdeildinni.

Hinn 19 ára gamli Finnur Tómas átti frábært tímabil með KR sumarið 2019 er liðið varð Íslandsmeistari með yfirburðum. Var hann valinn efnilegasti leikmaður Pepsi Max deildarinnar í kjölfarið.

Líkt og allt KR-liðið átti hann erfitt uppdráttar en hann ristarbrotnaði á reynslu hjá skoska félaginu Rangers í janúar á síðasta ári og náði því ef til vill ekki að sýna sínar bestu hliðar. Það er þó ljóst að Finnur býr yfir miklum hæfileikum enda eru tvö af stærri liðum Svíþjóðar með hann á óskalista sínum samkvæmt frétt sænska miðilsins Expressen í dag.

Bæði Norrköping og Elfsborg vilja fá Finn í sínar raðir. Er hér um að ræða tvö af stærri liðum Svíþjóðar en Elfsborg situr í 2. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir á meðan Norrköping er í 4. sæti en á enn möguleika á 2. sætinu.

Norrköping hefur verið duglegt að fjárfesta í íslenskum leikmönnum undanfarin ár. Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson hefur skotist upp á stjörnuhimininn á þessu tímabili. Mörg af stórliðum Evrópu er á eftir honum og óvíst hvort hann verði lengur í herbúðum Norrköping.

Þeir Guðmundur Þórarinsson pg Arnór Sigurðsson gerðu einnig gott mót hjá Norrköping. Guðmundur leikur nú með New York City í MLS-deildinni í Bandaríkjunum og Arnór með CSKA Moskvu í Rússlandi.

Elfsborg hefur áður keypt ungan og efnilegan varnarmann af KR en árið 2012 gekk Skúli Jón Friðgeirsson í raðir sænska félagsins.

Finnur Tómas hefur alls leikið 38 leiki í deild, bikar og Evrópu með KR og skorað í þeim tvö mörk. Á hann einnig að baki 12 leiki með Þrótti Reykjavík í Lengjudeildinni sumarið 2018. Þá hefur hann leikið alls 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af þrjá fyrir U21 árs landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×