Erlent

Ný smit í Bandaríkjunum aldrei fleiri

Kjartan Kjartansson skrifar
Útbreiðsla faraldursins um Bandaríkin er sögð meiri nú en í fyrri toppum í sumar og vor. Það telja sérfræðingar að geri erfiðara að ná tökum á honum og skapa álag á heilbrigðiskerfið.
Útbreiðsla faraldursins um Bandaríkin er sögð meiri nú en í fyrri toppum í sumar og vor. Það telja sérfræðingar að geri erfiðara að ná tökum á honum og skapa álag á heilbrigðiskerfið. Vísir/EPA

Fleiri en 83.000 manns greindust smitaðir af nýju afbrigði kórónuveirunnar í Bandaríkjunum í gær og hafa þeir aldrei verið jafnmargir frá upphafi faraldursins. Landlæknir Bandaríkjanna segir að innlögnum á sjúkrahús fari fjölgandi en að dánartíðni fari lækkandi vegna betri umönnunar.

Nýsmitin í gær voru rúmlega sex þúsund fleiri en nokkurn annan dag frá því að faraldurinn hóf innreið sína síðasta vetur. Fyrra met var rúmlega 78.840 manns 17. júlí, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Samkvæmt tölum Covid Tracking Project, sem tekur saman upplýsingar frá einstökum ríkjum Bandaríkjanna, hefur nú tæplega átta og hálf milljón manns smitast af veirunni.

Fjöldi nýsmitaðra síðustu vikuna er nú rúmlega 441.500 manns og hefur smituðum ekki fjölgað svo mikið á einni viku frá því í júlí. Dauðsföllum vegna veirunnar fer einnig fjölgandi en er þó enn verulega undir þeim tvö þúsund dauðsföllum sem urðu á hverjum degi í apríl. Nú látast um þúsund manns úr veirunni á dag.

Fjölgun nýsmitanna kom aðeins degi eftir að Donald Trump forseti hélt því enn og aftur fram í kappræðum forsetaframbjóðendanna að faraldurinn væri að fjara út og að aukin útbreiðsla á einstökum svæðum væri aftur að dvína á aðfaranótt föstudags.

Washington Post segir að hætta sé á að álagið verði sjúkrahúsum í vestan- og miðvestanverðum Bandaríkjunum að ofurliði. Mannslátum gæti þá fjölgað. Sérfræðingar óttast skort á lyfjum og búnaði.

Útbreiðsla veirunnar nú er sögð töluvert meiri um landið en þegar faraldurinn var í hámarki í sumar og vor. Innlögnum á sjúkrahús vegna veirunnar fer nú fjölgandi í 38 ríkjum af fimmtíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×