Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, segist reiðubúinn til að hefja friðarviðræður Aserbaídsjan á nýjan leik. Þá hafa yfirvöld í Frakklandi sagt að deiluaðilar í Nagorno-Karabakh stefni á að koma á vopnahléi í dag og Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefur boðist til að halda friðarviðræður í Moskvu og hafa bæði Armenar og Aserar þáð það.
Hundruð hafa fallið í átökunum og hafa báðar fylkingar sakað hina um að gera árásiri á almenna borgara. Áköll Bandaríkjanna, Rússlands og Frakklands eftir vopnahléi hafa hingað til verið hunsaðar.
Armenía og Aserbaídsjan hafa lengi deilt um yfirráð í Nagorno-Karabakh í Kákakusfjöllum en stillt var til friðar með samkomulagi árið 1994. Rússar, Frakkar og Bandaríkjamenn hafa haft frumkvæði að því að miðla málum á milli ríkjanna síðan.
Héraðið er landlukt svæði á milli ríkjanna sem sem tilheyrir Aserbaídsjan formlega. Því er þó stjórnað af armenskum aðskilnaðarsinnum. Átökin hafa valdið áhyggjum um að Tyrkir, sem standa við bakið á Aserbaídsjan, og Rússar, sem eru með varnarsáttmála við Armeníu, gætu dregist inn í þau.
Heimastjórn Nagorno-Karabakh segir að í heildina hafi 376 hermenn heimastjórnarinnar fallið í átökunum.
Tugir þúsunda hafa flúið héraðið vegna átakanna sem hafa nú staðið yfir í tæpar tvær vikur. Í frétt France24 var borgin Goris heimsótt en þangað hafa fjölmargir flóttamenn leitað og var rætt við flóttamenn og íbúa.
AP fréttaveitan segir að margir íbúar Líbanon af armenskum uppruna fylgist náið með átökunum og einhverjir þeirra segjast tilbúnir til að fara og taka þátt í þeim. Þegar hafi hópur manna farið til Nagorno-Karabakh.
Fjölmargir íbúar Líbanon eru af armenskum uppruna og er þar að mestu um að ræða afkomendur fólks sem lifið af þjóðarmorð Ottómana árið 1918 og flúði til Líbanon. Í frétt AP segir að víða megi sjá fána Armeníu á svölum í Beirút.
Á sama tíma segja sérfræðingar að Tyrkir hafi sent rúmlega 1.200 sýrlenska málaliða til átakasvæðisins og þar taki þeir þátt í átökunum við hlið Asera. Heimildarmenn AP í Sýrlandi hafa staðfest það og segja að Tyrki ráði menn til að verja olíulindir en flestir þeirra endi þó á víglínunni.
Bæði Tyrkir og Aserer neita því að sýrlenskir málaliðar taki þátt í átökunum.