Knattspyrnudeild Fjölnis hefur sótt enskan leikmann til að auka líkurnar á að halda sæti sínu í Pepsi Max deild karla en liðið situr sem stendur á botni deildarinnar án þess að hafa unnið leik.
Sá heitir Jeffrey Monakana og mun leika með Fjölni út tímabilið. Hann lék síðast með Dulwich Hamlet í 6. deild á Englandi. Monakana kom í gegnum akademíu Arsenal en fór þaðan til Preston North End og lék alls 40 leiki með liðinu í C-deildinni.
Birghton & Hove Albion keypti síðan leikmanninn en hann náði aldrei að brjótast inn í aðallið félagsins og lék ekki aldrei fyrir það. Þess í stað var hann lánaðar hingað og þangað eins og þekkist á Englandi. Því er Fjölnir hans 17. lið á ferlinum þrátt fyrir að Monakana sé aðeins 26 ára gamall.
Fjölnir er með fjögur stig eftir tólf leiki í Pepsi Max deildinni.
Þá hefur Þór/KA ákveðið að gera slíkt hið sama í Pepsi Max deild kvenna. Liðið sótti enskan framherja frá Huddersfield Town áður en félagaskiptaglugginn hér á landi lokaði.
Sú heitir Georgia Stevens og hefur spilað með Sheffield United undanfarið eftir að hafa leikið með unglingaliðum bæði Liverpool og Everton.
Þór/KA er sem stendur í 6. sæti Pepsi Max deildarinnar með 11 stig eftir 11 leiki. Þá er liðið komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins.