Knattspyrnudeild Gróttu hefur samið við danskan leikmann og mun hann klára tímabilið með Gróttu en félagið er í harðri fallbaráttu í Pepsi Max deildinni sem stendur.
Leikmaðurinn heitir Tobias Sørensen og kemur hann til Gróttu frá danska félaginu Vejle. Hann hefur leikið með yngri landsliðum Dana og lék með Vejle í dönsku B-deildinni á síðustu leiktíð.
Hann gerði nýverið tveggja ára samning við Vejle og virðist því í framtíðarplönum liðsins sem tryggði sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni fyrir ekki svo löngu. Kjartan Henry Finnbogason leikur með Vejle.
Sørensen getur leikið bæði í vörn sem og á miðjunni. Kemur hann á góðum tíma fyrir Gróttu en Ágúst Gylfason, þjálfari liðsins, hefur átt erfitt með að sannfæra leikmenn um að ganga til liðs við félagið.
Grótta er sem stendur í 11. sæti Pepsi Max deildarinnar með sex stig eftir 13 leiki, fimm stigum frá öruggu sæti. Næsti leikur liðsins er gegn botnliði Fjölnis þann 14. september.