Skoðun

Áfram Akureyrarflugvöllur

Guðmundur Baldvin Guðmundsson skrifar

Við Akureyringar og Norðlendingar höfum um árabil barist fyrir því að koma á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll og höfum horft til þess að bæta aðstöðuna á vellinum með stærri flugstöð, stærra flughlaði og betri lendingarbúnaði. Það hefur verið skýrt í okkar huga að reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll er ein fljótvirkasta byggðaaðgerð sem hægt er að ráðast í og skiptir afar miklu máli ekki bara fyrir Akureyri og Eyjafjörð heldur norður- og austurland allt.

ILS búnaður sannar gildi sitt

Á árinu 2018 vannst áfangasigur í þessar baráttu okkar þegar samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson tók af skarið og tryggði fjármagn til að koma mætti upp ILS búnaði við völlinn. Frá þeim tíma hefur verið unnið að því að koma búnaðinum fyrir og nú í byrjun árs var hann svo tekinn í notkun.

Óhætt er að segja að búnaðurinn hafi þegar sannað gildi sitt því nú á einni viku hefur hann í tvígang leitt til þess að farþegaþotur hafa getað lent á Akureyrarflugvelli með hjálp búnaðarins. 

Áframhaldandi uppbygging

Annar áfangasigur vannst í lok síðasta árs þegar samgönguráðherra og ferðamálaráðherra skrifuðu undir viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli. Var í kjölfarið skipaður aðgerðarhópur sem ætlað var að gera tillögur og stilla upp sviðsmyndum um frekari uppbyggingu á vellinum og er hópnum ætlað að skila tillögum fyrir 31. mars n.k. Undirritaður var skipaður í aðgerðarhópinn af hálfu Akureyrarbæjar og er ég fullur bjartsýni á að vinna hópsins skili raunhæfum tillögum um uppbyggingu vallarins og stjórnvöld geti strax í kjölfarið hafist handa við áframhaldandi uppbyggingu Akureyrarflugvallar.

Höfundur er bæjarfulltrúi (B) og formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×