Innlent

Viðvörunin orðin appelsínugul fyrir Suðausturland

Kjartan Kjartansson skrifar
Verst verður veðrið undir Öræfajökli á morgun.
Verst verður veðrið undir Öræfajökli á morgun. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan varar nú við norðaustan stórhríð á Suðausturlandi annað kvöld og hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun í stað gulrar. Gul viðvörun vegna veðurs tekur gildi fyrir allt landið utan suðvesturhornsins um miðjan dag á morgun og á að vera fram á fimmtudagskvöld.

Kröpp og dýpkandi lægð stefnir nú á landið og á að hvessa hressilega úr austri og síðan norðaustri á morgun. Upphaflega voru gefnar út gular veðurviðvaranir um mest allt landið en viðvörunin fyrir Suðausturland hefur nú verið uppfærð í appelsínugula á milli klukkan 17:00 og 22:00 á morgun.

Á Suðausturlandi er nú spáð norðaustan 18-28 metrum á sekúndu með talsverðri snjókomu eða slyddu, hvössustu í Mýrdal og við Öræfajökul þar sem vindhviður geta farið yfir 35 metra á sekúndu. Varað er við að ekkert ferðaveður verði á þeim slóðum. Gul viðvörun tekur gildi klukkan 14:00 á morgun og gildir fram á fimmtudagsmorgun.

Viðvaranir í öðrum landshlutum taka gildi um miðjan dag eða snemmkveldis á morgun. Sums staðar, eins og á Vestfjörðum gilda þær fram á fimmtudagskvöld. Alls staðar er spáð hvassviðri eða stormi með snjókomu eða hríðaveðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×