Íslenski boltinn

Erfingi rútufyrirtækisins orðinn leikmaður ÍA

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Tyrfingsson og hans nýi þjálfari, Jóhannes Karl Guðjónsson.
Guðmundur Tyrfingsson og hans nýi þjálfari, Jóhannes Karl Guðjónsson. mynd/kfia.is

Knattspyrnumaðurinn efnilegi Guðmundur Tyrfingsson hefur samið um að leika fyrir ÍA næstu tvö árin, eða út keppnistímabilið 2022.

Guðmundur, sem heitir í höfuðið á afa sínum, stofnanda samnefnds rútufyrirtækis, kemur til ÍA frá Selfossi þar sem hann hefur staðið sig vel þrátt fyrir ungan aldur. Hann er aðeins 17 ára en hefur þegar leikið 32 leiki í meistaraflokki fyrir Selfoss. Í þeim hefur hann skorað átta mörk, þar af fernu í bikarleik gegn Snæfelli í sumar.

„Það er mjög jákvætt að fá Guðmund til félagsins. Guðmundur er ungur og efnilegur leikmaður sem passar vel inn í okkar uppbyggingu. Hann er líka með mikinn metnað til að ná langt í fótbolta og það er það sem við leitum að í leikmönnum hér á Skaganum, svo hann á bara eftir að vaxa og dafna og gera frábæra hluti í framtíðinni. Hann á framtíðina fyrir sér,“ segir Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, á heimasíðu félagsins.

Guðmundur á að baki níu leiki fyrir U17-landslið Íslands, auk landsleikja fyrir U18- og U16-lið.

Þegar þetta er skrifað hafa félagaskipti hans ekki verið staðfest á vef KSÍ og því óvíst hvort Guðmundur verður í leikmannahópi ÍA í bikarleiknum við Val í kvöld. Næsti leikur Skagamanna í Pepsi Max-deildinni er gegn KA á útivelli á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×