Innlent

KSÍ fækkar í liði sínu og segir upp reynslumiklum starfsmanni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Gylfason á einni af fjölmörgum góðum stundum með leikmönnum karlalandsliðsins í undanfarin ár.
Gunnar Gylfason á einni af fjölmörgum góðum stundum með leikmönnum karlalandsliðsins í undanfarin ár. Vísir/Bára Dröfn

Gunnari Gylfasyni, starfsmanni Knattspyrnusambands Íslands, var sagt upp störfum hjá sambandinu á föstudag. Gunnar hafði starfað hjá sambandinu í tæpa tvo áratugi og fylgt karlalandsliði Íslands eftir hvert fótmál á ferðalögum þess erlendis.

Um er að ræða nokkur tíðindi í knattspyrnuhreyfingunni. DV greindi fyrst frá.

Framkvæmdastjóri KSÍ segir um skipulagsbreytingu að ræða. Gunnar hefur starfað á knattspyrnusviði og verið meðal annars í aðalhlutverki í kringum skipulag hjá karlalandsliðinu og leiki íslenskra félagsliða í Evrópukeppnum. Hann var áður fjölmiðlafulltrúi hjá sambandinu.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir alltaf ömurlegt þegar standa þurfi í uppsögnum. Gunnar eigi langar starfsaldur hjá KSÍ eins og svo margir af starfsmönnum sambandsins.

Í skoðun sé hjá sambandinu hvernig starfslokum hans verði háttað.

„Við erum að fara yfir það í samstarfi við hann, hvernig við höfum næstu mánuði.“

Aðspurð hvort von sé á frekari uppsögnum innanhúss segir hún ekkert slíkt á dagskrá. Í samtali við DV segir Klara að ekki verði ráðið í starfið að svo stöddu. Verið sé að fækka í liðinu og endurskipuleggja.

Gunnar er annar reynslumikill starfsmaður sem hverfur frá KSÍ á innan við ári. Jóhann G. Kristinsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, var sagt upp í fyrra eftir áratugastarf hjá sambandinu.

Gunnar vildi ekki ræða uppsögnina að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×