Innlent

Segir mikil­vægt að heil­brigðis­starfs­fólk komi fram við hin­segin fólk af virðingu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Landlæknir gaf í dag út tilkynningu þar sem hamrað var á því að heilbrigðisstarfsfólk kæmi fram við hinsegin fólk af virðingu.
Landlæknir gaf í dag út tilkynningu þar sem hamrað var á því að heilbrigðisstarfsfólk kæmi fram við hinsegin fólk af virðingu. Vísir/Jóhann/Vilhelm

Aðstoðamaður Landlæknis segir grein Arnars Sverrissonar, sem ber titilinn „Kynröskun stúlkna. Hin nýja móðursýki,“ vera ástæðu tilkynningar sem gefin var út af Landlæknisembættinu í dag, þar sem fjallað er um mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsmenn beri virðingu fyrir hinsegin fólki.

„Krafa hinsegin fólks um að standa jafnfætis öðrum er og verður réttmæt. Heilbrigðisstarfsfólki er bent á að það getur fengið hinsegin fræðslu hjá Samtökunum 78,“ segir í tilkynningunni. „Hinsegin fólk, líkt og allir aðrir, á rétt á heilbrigðisþjónustu sem veitt er af hálfu einstaklings sem sýnir virðingu, sinnir störfum sínum af árvekni og trúmennsku.“

Grein Arnars vakti mikla athygli og var harðlega gagnrýnd víða, meðal annars af Samtökunum ´78 og Trans Ísland. Í yfirlýsingu Trans Íslands sagði meðal annars að í greininni vísaði höfundur til „úreltra kenninga um kynvitund trans fólks, en í grein hans er trans fólk ranglega sagt vera með raskanir og brenglanir.“ Höfundur greinarinnar blandi jafnframt saman trans fólki við aðra hópa innan hinsegin samfélagsins og ljóst sé að höfundar hafi ekki kynnt sér hugtökin til hlítar.

„Landlæknir fagnar fjölbreytileikanum“

„Tilefnið er það, og í raun og veru út af þeirri umræðu sem fór af stað í kommentakerfum og víðar. Við vildum bara setja eitthvað út vegna þess að þarna er hópur sem er í mjög viðkvæmri stöðu og það þarf lítið til til að gera þá stöðu enn verri,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis.

Í tilkynningunni frá Landlækni kemur fram að mikilvægt sé að heilbrigðisstarfsmenn komi fram af fagmennsku, virðingu og á grundvelli bestu þekkingar hverju sinni og „forðist það að valda eða gera lítið úr angist, þjáningu og stöðu þeirra sem sárlega þurfa viðurkenningu og á stuðningi að halda.“

„Þó svo að vafalaust megi enn gera betur í heilbrigðisþjónustu fyrir hinsegin og kynsegin fólk þá ber að fagna þeim miklu framförum sem orðið hafa í aðgengi þessa hóps að slíkri þjónustu. Landlæknir fagnar fjölbreytileikanum og sendir kveðju sína til hinsegin fólks.“

Það hlýtur þá að vera mikilvægt að hinsegin fræðsla verði hluti af námi heilbrigðisstarfsfólks?

„Jú, að sjálfsögðu, og mikið af þessu eru sjálfsagðar staðreyndir um hvernig við nálgumst fólk og hvernig við umgöngumst nágranna okkar í þessu samfélagi. Hins vegar eru sumir heilbrigðisstarfsmenn sem eru líklegri en aðrir til að aðstoða þennan hóp og því mun mikilvægara er að það fólk sæki sér þá þekkingu og sé upplýst um nýjustu þekkingu á þeirra sérsviði,“ segir Kjartan. „Heilbrigðisstarfsmenn eiga að geta nálgast fólk á jafningjagrundvelli. Þannig á það að vera, þannig viljum við hafa það og þannig er það teljum við.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×