Íslenski boltinn

Eiður Aron: Ég verð ekki ánægður ef ég dett úr liðinu eftir þennan leik

Andri Már Eggertsson skrifar
Eiður Aron var flottur í hjarta varnar Vals í dag.
Eiður Aron var flottur í hjarta varnar Vals í dag. Vísir/Bára

Miðvörðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson snéri aftur í lið Vals er liðið vann 1-0 sigur á KA í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í dag. 

Eiður Aron hefur mátt þola mikla bekkjarsetu það sem af er sumri en fékk óvænt tækifæri í byrjunarliði Vals í dag og nýtti tækifærið vel. Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði svo eina mark leiksins snemma leiks þegar hann nýtti sér mistök Rodrigo Gomes í liði KA. 

Sigurinn þýðir að Valur er nú með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar.

„Ég var orðin mjög óþolinmóður á þeim fáu tækifærum sem ég var búinn að fá í Vals liðinu. Það var fínt að fá 90 mínútur í dag sem skilaði sér í flottum sigri. Ég lýg því ekki þetta er búið að vera erfitt en gaman að fá að spila,” sagði Eiður Aron að leik loknum.

Honum fannst leikurinn ekki vera nein flugeldasýning en það þarf líka að vinna þessa svokölluðu iðnaðarsigra ef liðið ætlar sér að verða Íslandsmeistari. Fyrir varnarmenn er svo fátt betra en að halda hreinu.

„Það er oft talað um það sem einkennir meistara lið er að spila illa og fá þrjú stig sem var það sem gerðist í okkar leik í dag. Við vorum alls ekki góðir en leggjumst glaðir á koddann í kvöld.”

„Ég get ekki beðið eftir að tylla mér aftur á bekkinn eins og venjan hefur verið,” sagði Eiður í kaldhæðni. Segist hann vera mættur til að spila fótbolta og að frammistaða hans í dag ætti alltaf að skila honum byrjunarliðssæti í komandi leikjum Vals.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×