Henry Birgir Gunnarsson og félagar í Mjólkurbikarmörkunum fóru yfir sigur ÍBV á KA er liðin mættust á Greifavelli í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn var hin mesta skemmtun en framlengja þurfti eftir að staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma.
Mörkin og umræður um ÍBV má sjá í spilaranum hér að neðan.
Í uppbótartíma skoruðu gestirnir frá Vestmannaeyjum tvívegis en Helgi Sigurðsson - þjálfari liðsins - leyfði sér að geyma Gary Martin á varamannabekknum allt þangað til á 72. mínútu leiksins.
„Ég grínast oft með að kalla hann eigandann, hann Daníel Geir Moritz. Hann kemur þarna inn, ásamt Helga Sig og knattspyrnuráðinu í Eyjum þá eru þeir búnir að stokka flott upp í þessu.“
„Portúgalinn í fyrra [Pedro Hipólító] kom auðvitað með haug af slökum erlendum leikmönnum. Þeir eru búnir að hreinsa þetta út og komnir með fína íslenska leikmenn í bland við sterka erlenda leikmenn. Eins og þeir þreytast ekki að segja frá á samfélagsmiðlum þá enduðu þeir leikinn með Gary Martin og tíu Eyjamenn sem er bara mjög flott,“ sagði Hjörvar Hafliðason, annar af sérfræðingum þáttarins.