Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er mögulega á leið til Stjörnunnar og myndi þá klára tímabilið í Pepsi Max deild kvenna með Garðbæingum.
Í þætti Pepsi Max Markanna í gærkvöld sagði Mist Rúnarsdóttir, annar af sérfræðingum þáttarins, að orðrómar væru um að landsliðskonan Gunnhildur Yrsa – sem hefur leikið sem atvinnumaður erlendis frá árinu 2013 - gæti verið á leið í uppeldisfélag sitt Stjörnuna.
Hún lék síðast með liði Utah Royals í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum.
Gunnhildur - sem hefur aðallega leikið í stöðu miðjumanns undanfarin ár - yrði ekki eini liðsstyrkur Stjörnunnar en einnig gæti kanadískur markvörður verið á leið til félagsins sem og ítalskur framherji.
„Ég heyrði þetta á nokkrum stöðum á leiðinni hingað,“ sagði Mist án þess þó að vilja staðfesta eitt eða neitt.
Gunnhildur lék á sínum tíma 119 deildarleiki með Stjörnunni og gerði í þeim 25 mörk. Þá hefur hún leikið 71 leik fyrir íslenska landsliðið og skorað í þeim tíu mörk.
Stjarnan er í 8. sæti Pepsi Max deildarinnar með sjö stig að loknum átta leikjum. KR og Þróttur Reykjavík eru einnig með sjö stig en KR-ingar eiga leik til góða.