Innlent

Karlmaður leiddur fyrir héraðsdóm vegna brunans

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í dag.
Maðurinn fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. vísir/vilhelm

Karlmaðurinn sem handtekinn var í gær í þágu rannsóknar á brunanum við Bræðraborgastíg var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðja tímanum í dag. Þess er krafist að maðurinn verði úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Maðurinn var fluttur með lögreglubíl í Héraðsdóm Reykjavíkur rétt fyrir klukkan þrjú í dag að því er greint er frá á vef Fréttablaðsins. Ekki náðist í Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjón við vinnslu þessarar fréttar.

Tveir voru handteknir á vettvangi brunans í gær fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögregluþjóna á vettvangi en þeim sleppt eftir skýrslutökur.

Tilkynning barst um eldsvoðann klukkan 15:15 í gær. Húsið, sem er á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs, varð hratt alelda og voru aðstæður mjög erfiðar slökkviliðsmönnum. Þá lagði mikinn reyk frá húsinu. Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var sent á vettvang.

Þrír létust og tveir eru á gjörgæslu eftir brunann. Einn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Þá er hafin rannsókn á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna brunans en hún beinist að slökkvistarfi og aðstæðum í húsinu.

Þá hefur verið boðað til blaðamannafundar vegna brunans í húsnæði Slökkviliðsins að Skógarhlíð 14 klukkan 17:30 í dag. Þar munu Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn munu fara yfir atburði gærdagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×