Öllum leikjum á vegum Knattspyrnusambands Íslands hefur verið frestað vegna samkomubannsins sem skellur á aðfaranótt mánudags.
Á fundi sínum í dag ákvað stjórn KSÍ að fresta öllum leikjum á vegum sambandsins, landsliðsæfingum og öðrum tengdum viðburðum á því fjögurra vikna tímabili sem samkomubannið nær yfir.
Ákvörðun KSÍ tekur gildi frá og með deginum í dag, 13. mars.
Í tilkynningu frá KSÍ kemur fram að ákvörðun hvort leikur Íslands og Rúmeníu í umspili um sæti á EM 26. mars fari fram bíði niðurstöðu fundar Knattspyrnusambands Evrópu á þriðjudaginn.
Í tilkynningunni hvetur KSÍ aðildarfélögin sín til að fara í öllu eftir tilmælum stjórnvalda þegar kemur að útfærslu samkomubannsins.