Innlent

Sóttu hylki til að flytja COVID-19 smitaða

Sylvía Hall skrifar
TF-SIF.
TF-SIF. Landhelgisgæslan

TF-SIF lenti nú laust fyrir klukkan fjögur á Gardermoen flugvelli í Osló þar sem hún sótti tvö hylki til að flytja smitaða sjúklinga á sjúkrahús. Hylkin eru mikilvæg við sjúkraflutninga COVID-19 smitaðra.

Annað hylkið mun fara á Landspítala og hitt á sjúkrahúsið á Akureyri. Viðbragðsaðilar munu geta nýtt hylkin ef þörf er á að flytja smitaða á sjúkahús og draga þannig úr smithættu við flutninginn.

Hylkin sem um ræðir.Landhelgisgæslan

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra óskaði eftir því við Landhelgisgæsluna að áhöfnin á TF-SIF myndi annast flutninginn á hylkjunum, en TF-SIF er eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar. Vélin er væntanleg aftur til landsins í kvöld.

Í tilkynningu er haft eftir Georgi Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, að það sé ánægjulegt að Landhelgisgæslan getið aðstoðað við að koma búnaðinum til landsins og að ferðin undirstrikar mikilvægi vélarinnar.

„Ferðin til Osló undirstrikar mikilvægi þess að þjóðin eigi flugvél sem getur nýst þegar flugsamgöngur liggja að mestu niðri og þörf er á að koma neyðarbúnaði hratt og örugglega til landsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×