Fótbolti

Klopp bað túlkinn sem hann skammaði afsökunar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp baðst afsökunar á blaðamannafundi í gær.
Klopp baðst afsökunar á blaðamannafundi í gær. vísir/getty

Jürgen Klopp bað túlkinn sem hann skammaði á blaðamannafundi á mánudaginn afsökunar eftir leik Liverpool og Red Bull Salzburg í Meistaradeild Evrópu í gær.

Klopp var ekki sáttur með hvernig túlkurinn þýddi orð Jordans Henderson, fyrirliða Liverpool, á þýsku á blaðamannafundi á mánudaginn. Klopp þýddi orð Hendersons sjálfur og lét túlkinn svo heyra það.



Sá þýski virðist hafa séð eftir því en á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Salzburg í gær bað hann túlkinn afsökunar.

„Áður en við byrjum vil ég biðja þig fyrirgefningar á þessu sem gerðist í gær. Þetta var ósanngjarnt og sérstaklega þar sem þetta gerðist opinberlega,“ sagði Klopp á þýsku.

„Þetta var fullkomlega heimskt. Ég var ekki hrifinn af því hvernig svarið var þýtt en ég brást rangt við. Ég hefði átt að gera betur og biðst afsökunar,“ bætti Klopp við og tók í kjölfarið í spaðann á túlkinum.



Klopp hafði ástæðu til að vera kátur eftir leikinn í Salzburg í gær því Liverpool vann 0-2 sigur og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Dregið verður í 16-liða úrslitin á mánudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×