Innlent

Fossblæddi eftir fall í gegnum rúðu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Verslunin er sögð vera í Breiðholti.
Verslunin er sögð vera í Breiðholti. vísir/vilhelm

Maður var fluttur á slysadeild í nótt eftir að hafa fallið í gegnum rúðu verslunar. Að sögn lögreglunnar fékk maðurinn flog eða krampa á ellefta tímanum í gærkvöldi með þeim afleiðingum að hann hrasaði. Við það féll hann aftur fyrir sig og í gegnum rúðu verslunarinnar, sem er sögð vera í Breiðholti.

Við þetta á maðurinn að hafa slasast umtalsvert, fengið sár á hnakka og á honum að hafa blætt mikið. Maðurinn var því fluttur á bráðadeild til aðhlynningar en nánari upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir.

Lögreglan segist einnig hafa haft afskipti af drukknum manni á Seltjarnarnesi. Sá vildi víst ekki greiða fyrir veitingar sem hann hafði pantað og neytt á veitingahúsi í bænum. Hann var því handtekinn og fluttur í fangageymslu, ekki aðeins fyrir fjársvik heldur er hann jafnframt sagður hafa haft í hótunum við lögreglumenn.

Óvelkominn hótelgestur var einnig til vandræða á þriðja tímanum í nótt. Lögreglan segist hafa verið kölluð að hóteli í miðborginni þar sem maður, sem ekki var gestur á hótelinu, neitaði að yfirgefa svæðið. Ekki fylgir sögunni hvort maðurinn hafi verið handtekinn en lögreglan segir í orðsendingu sinni að á honum hafi fundist ætluð fíkniefni. Hann hafi því verið kærður fyrir vörslu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×