Skoðun

Í ljósi umræðunnar - Jarðstrengur við Sauðárkrók

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar

Öll erum við sammála um mikilvægi afhendingaröryggis á Sauðárkróki og þar með tvöfaldrar tengingar inn á svæðið. Við hjá Landsneti tökum undir bókun sveitarstjórnar Skagafjarðar þar sem lýst er yfir áhyggjum af stöðunni á svæðinu og að ráðist verði í uppbyggingu raforkukerfisins á Norðurlandi án tafar.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 15. desember gagnrýndi sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Sigfús Ingi Sigfússon, okkur hjá Landsneti og taldi að fyrirtækið hefði dregið lappirnar við uppbyggingu flutningskerfis í sveitarfélaginu. Við þessu brást Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets með því að benda á að breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna framkvæmdanna hafi tekið of langan tíma.

Í kerfisáætlun Landsnets árið 2015 var tekin ákvörðun um lagningu jarðstrengs frá Varmahlíð að tengivirkinu á Sauðárkróki ásamt stækkun spennistöðva. Í áætluninni var gert ráð fyrir að framkvæmdir yrðu á árinu 2018. Við undirbúning framkvæmdanna árið 2016 óskaði sveitarfélagið eftir því við Landsnet að tengivirki yrði fært þar sem staðsetning þess á samþykktu skipulagi væri of nálægt íbúðabyggð. Eftir viðræður milli sveitarfélagsins, RARIK og Landsnets var fallist á nýja staðsetningu tengivirkisins. Í kjölfarið hófst vinna við að velja nýja leið fyrir jarðstrengi og staðsetja tengivirki á nýrri lóð í samvinnu við starfsmenn sveitarfélagsins. Þann 17. janúar 2017 var beiðni send skipulags- og byggingarfulltrúa um að lokið yrði við breytingu á aðalskipulagi í samræmi við nýja strengleið.

Unnið var að undirbúningi verksins samhliða leyfisveitingaferlinu en áætlað var að framkvæmdir gætu hafist vorið 2018 og þeim lyki síðsumars 2019. Farið var í útboð á jarðstreng síðla árs 2017, samið um innkaup um áramótin 2017-2018 og var jarðstrengurinn kominn til landsins vorið 2018. Þar sem staðfesting sveitarstjórnar á aðalskipulagi hafði ekki borist var verkefnið stöðvað.

Þann 24. apríl 2019 staðfesti sveitarstjórn aðalskipulagið og sendi það Skipulagsstofnun til staðfestingar. Staðfesting Skipulagsstofnunar barst sveitarfélaginu þann 19. júní 2019 og var hún auglýst í Stjórnartíðindum í kjölfarið.

Tilboð í jarðvinnu og lagningu strengsins voru opnuð þann 20. júní 2019 eða daginn eftir staðfestingu Skipulagsstofnunar. Umsókn um framkvæmdaleyfi var send sveitarfélaginu 26. júní 2019 og gefið út 25. júlí 2019.

Unnið var að niðurlagningu strengsins eins lengi og veður leyfði nú í vetur auk þess sem unnið var að byggingu húsa fyrir tengivirki á báðum stöðum.

Við hjá Landsneti höfum lagt mikla áherslu á samtal og samráð undanfarin ár þegar kemur að verkefnum sem við erum að framkvæma eða hefja framkvæmdir á. Fyrir okkur skiptir máli að eiga í stöðugu samtali við hagsmunaaðila sem byggist á hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×