Innlent

Bíða enn eftir Landsrétti

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Sindri Þór Stefánsson fékk fjögurra og hálfs árs dóm.
Sindri Þór Stefánsson fékk fjögurra og hálfs árs dóm. Fréttablaðið/Ernir
Bitcoin-málið svokallaða er ekki enn komið á dagskrá Landsréttar en dómur í málinu var kveðinn upp í janúar. Sjö menn voru þá dæmdir fyrir aðild að innbrotum og þjófnaði úr tveimur gagnaverum. Þeir fimm sem hlutu þyngstu refsingu áfrýjuðu málinu til Landsréttar og var málið skráð þar 8. mars síðastliðinn. Þótt átta mánuðir séu liðnir hefur málið ekki enn verið tekið á dagskrá réttarins.

Í svari Landsréttar við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að ástæðan sé sú að ríkissaksóknari hafi enn ekki þingfest málið og afhent gögn þess til Landsréttar. Í svari ríkissaksóknara segir að Héraðsdómur Reykjaness hafi enn ekki afhent gögn málsins þótt óskað hafi verið eftir því og sú beiðni verið ítrekuð.

Björn Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, segir að þegar málið hafi verið þingfest verði verjendum og ákæruvaldi veittir frestir til að skila greinargerðum en það sé fyrst að lokinni þessari gagnaöflun sem málið sé tilbúið til málflutnings og unnt að afkveða dagsetningu hans. Aðspurður segir Björn að ekki sé unnt að fullyrða að málið hafi beðið lengur en önnur mál sem verið hafa til meðferðar hjá réttinum.

Sindri Þór Stefánsson hlaut þyngsta dóminn í héraði en hann var dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar fyrir skipulagningu og framkvæmd brotanna.




Tengdar fréttir

Sindri um týndu Bitcoin-tölvurnar: „Kannski veit ég hvar þær eru og kannski ekki“

Maðurinn sem skipulagði þjófnað á tölvubúnaði sem stolið var í Bitcoin-málinu er sagður vera alþjóðlegur, dularfullur og hættulegur í umfjöllun Vanity Fair um málið. Rætt er við Sindra Þór Stefánsson, einn af þeim sem dæmdur var í fangelsi vegna málsins, sem segist kannski vita og kannski ekki vita hvað orðið hafi um búnaðinn ófundna sem stolið var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×