Skoðun

Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar

Þorsteinn Víglundsson skrifar
„Ekkert er öruggt í þessu lífi nema dauðinn og skattar“ er ódauðleg tilvitnun í Benjamin Franklin. Og fátt er jafn varanlegt og tímabundnir skattar.

Á þessu ári verða tekjur ríkissjóðs um 120 milljörðum króna hærri en þær hefðu verið ef skattprósentur væru þær sömu og á árunum fyrir hrun. Þrátt fyrir mikla gagnrýni Sjálfstæðisflokks og Framsóknarf lokks á skattahækkanir vinstri stjórnarinnar á árunum 2009 til 2013 standa þessir flokkar ásamt Vinstri grænum að því að festa sömu skattahækkanir í sessi. Í stað þess að nýta stórauknar tekjur ríkissjóðs á undanförnum árum til skattalækkana hefur taumlaus útgjaldaþensla leitt til þess að ekkert svigrúm er til slíkra lækkana nú þegar tekið er að hægja á í efnahagslífinu að nýju.

Miðað við fjárlagafrumvarp næsta árs munu útgjöld ríkissjóðs án fjármagnsgjalda hafa aukist um rúmlega 200 milljarða króna á ári frá því þessi ríkisstjórn tók við völdum. Útgjaldaaukningin er á öllum sviðum ríkisrekstrar og hvað mest í að þenja út ríkisbáknið. Ríkisstjórnin virðist stefna að Íslandsmeti í útgjöldum án atrennu. Svo mjög liggur á að skýr markmið um árangur liggja sjaldnast fyrir heldur virðist útgjaldaaukningin vera orðin markmið í sjálfu sér. Skattheimta hins opinbera er hvergi meiri en hér á landi, sé horft til aðildarríkja OECD. Nemur hún nú um 34% af landsframleiðslu og aðeins Svíar ná svipuðum hæðum og við.

Miklar skattahækkanir eftirhrunsáranna voru rökstuddar með því að ekki væri önnur leið fær til að ná jafnvægi í rekstri ríkisins þar sem skatttekjur drógust mikið saman vegna hrunsins. Þær lögðust af miklum þunga á atvinnulíf og heimili sem glímdu ekki síður við grafalvarlega stöðu á þessum tíma. Þessar skattahækkanir töfðu án efa viðsnúning í efnahagslífinu. Tekjuskattur á fyrirtæki og einstaklinga, fjármagnstekjuskattur og tryggingagjald eru hærri en fyrir hrun og sérstakir skattar eru enn lagðir á banka hér á landi sem leiða til hærra vaxtastigs en ella.

Ofan á það eru ótvíræð merki um kólnun í hagkerfinu. Það væri góð innspýting í efnahagslífið ef ríkisstjórnin gæti hafist handa við að lækka skatta svo um munaði. En því miður er ekkert svigrúm til þess.

Þótt lækkanir hafi verið boðaðar munu þær aðeins að óverulegu leyti taka gildi á næsta ári og á sama tíma er verið að hækka aðra skatta eða leggja á nýja. Tímabundnar skattahækkanir vinstristjórnarinnar ætla svo sannarlega að reynast lífseigar undir stjórn Sjálfstæðismanna í fjármálaráðuneytinu.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×