Innlent

Nemandi í Hagaskóla tekinn kverkataki þar til hann missti meðvitund

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í Hagaskóla í dag.
Atvikið átti sér stað í Hagaskóla í dag. Vísir/vilhelm
Nemandi í Hagaskóla tók í dag samnemanda sinn kverkataki þangað til sá síðarnefndi missti meðvitund. Kallað var á sjúkrabíl og lögreglu og nemandinn fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar. Líðan hans er eftir atvikum.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem S. Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri Hagaskóla sendi foreldrum nemenda skólans í dag.

Í póstinum kemur fram að nemandinn hafi fallið í gólfið þegar hann missti meðvitund. Þá virðist það vera sem svo að einhverjir nemendur líti á það sem leik að taka aðra kverkataki og bíða eftir því að viðkomandi gefi merki um hvenær sleppa eigi takinu.

„Það ætti að vera öllum ljóst að þetta á ekkert skylt við leik og getur verið stórhættulegt,“ segir S. Ingibjörg.

Þá hafi nokkur hópur nemenda orðið vitni að atvikinu mörgum verið brugðið. Foreldrar eru hvattir til að ræða við börnin sín um alvarleika málsins í vetrarleyfi sem framundan er. Eftir helgi muni stjórnendur og kennarar ræða við nemendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×