Erlent

Um 50 þúsundum gert að flýja heimili sín vegna skógar­elda

Atli Ísleifsson skrifar
Alls fórust 44 í skógareldum í Kaliforníu á síðasta ári.
Alls fórust 44 í skógareldum í Kaliforníu á síðasta ári. AP
Tugum þúsunda hefur verið gert að yfirgefa heimili sín vegna þeirra skógarelda sem nú geisa í Kaliforníu. Slökkviliðsstjóri í Los Angeles segir í samtali við AP að slökkvilið hafi enn ekki náð stjórn á eldunum sem blossuðu upp seint á miðvikudagskvöld.

NBC greindi frá því í gær að rúmlega 50 þúsund manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldanna. Kröftugir vindar hafi torveldað allt slökkvistarf og gera spár ráð fyrir að ekki muni lægja á næstu dögum.

Enn hafa ekki borist fréttir af manntjóni, en fjöldi heimila hafa eyðilagst frá því að eldarnir hófust. Þannig hafa 49 hús brunnið til kaldra kola í hinum svokallaða Kincade-eldum og þá er búið að rýma smábæinn Geyserville.

Eldar geisa nú meðal annars í fjallendinu norðan við Los Angeles og nálgast nú bæi í útjaðri stórborgarinnar. Hefur fjöldi húseigenda reynt að slökkva elda sjálfir án aðstoðar slökkviliðs.

LA Times segir frá því að mikill hiti og þurrkur komi til með að halda áfram inn í helgina. Slökkvilið hefur notast við þyrlur í slökkvistarfinu.

Búið er að loka á rafmagn í norðurhluta Kaliforníu til að koma í veg fyrir að brotnar rafmagnslínur orsaki frekari elda.

Alls fórust 44 í skógareldum í Kaliforníu á síðasta ári.

EPA





Fleiri fréttir

Sjá meira


×