Erlent

Jane Fonda handtekin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jane Fonda, til hægri, segist brenna fyrir loftslagsmálum.
Jane Fonda, til hægri, segist brenna fyrir loftslagsmálum. Vísir/Getty
Óskarsverðlaunaleikkonan og aðgerðasinninn Jane Fonda var handtekin fyrir utan þinghús Bandaríkjanna í Washington-borg í gær. Þar var hún stödd til þess að taka þátt í loftslagsmótmælum.

Hin 81 árs gamla Fonda var í hópi þeirra 16 mótmælenda sem ákærðir voru fyrir ólögleg mótmæli við austurhlið þinghússins. Henni var sleppt stuttu síðar.

Fonda hafði nýlega lokið ræðu við mótmælin, sem voru þau fyrstu í vikulegum föstudagsmótmælum, þegar hún var handtekin. Markmið mótmælanna er að knýja fram aðgerðir í loftslagsmálum af hálfu stjórnvalda.

Í ræðu sinni sagðist Fonda vilja sýna ungum loftslagsaðgerðasinnum samstöðu, og nefndi hina sænsku Gretu Thunberg í því samhengi. Sagðist leikkonan dást að Thunberg fyrir að hafa siglt yfir Atlantshafið á skútu til þess að lágmarka kolefnisfótspor sitt.

„Við verðum að tryggja að loftslagskrísan sé sýnileg. Mér líður eins og ég sé ekki búin að vera að gera nóg,“ hefur NYT eftir Fonda, sem hefur lofað að snúa aftur að þinghúsinu. Segist hún raunar vera flutt til Washington næstu fjóra mánuði vegna mótmælanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×