Skoðun

Tíma­mót: Borgar­línan fjár­mögnuð

Pawel Bartoszek skrifar
Tvenns konar gagnrýni heyrist helst á samgöngusáttmálann milli ríkis og höfuðborgarsvæðisins. Að of mikið sé gert fyrir bíla og alls ekki nóg.

Til skýringar er myndin er þessi: helmingur peninganna í sáttmálanum fer í grænar samgöngulausnir: Borgarlínu, bættar almenningsamgöngur og göngu- og hjólastíga. Þetta finnst sumum stjórnmálamönnum of mikið.

Þá má spyrja: Finnst þeim stjórnmálamönnum líklegt að ríkisstjórn sem vill taka sig alvarlega í loftslagsmálum myndi leggja til eitthvað minna? Finnst þeim líklegt að sveitarfélög sem vilja draga úr mengun og þétta byggð myndu samþykkja eitthvað minna? 

Ef stuðla á að breyttum ferðavenjum er eðlilegt að fjárfesta í samræmi við það.

Sú gagnrýni er beittari og réttari, sem beinist að því að ekki sé nóg gert fyrir að hvetja til grænni ferðamáta. Það má þó benda á að þær vegaframkvæmdir sem lagðar eru til innan miðkjarna Reykjavíkur eru fyrst og síðast til að bæta borgarrými, færa umferð undir jörð og breyta götum í tengslum við Borgarlínu. Enginn er að fara byggja slaufur hjá Melatorgi.

Samkomulagið opnar á beina gjaldtöku á umferð. Þótt slík gjaldtaka sé gjarnan umdeild í fyrstu dregur hún samt úr umferð. Þótt ólík gjöld eftir tíma dags hljómi flókin þá virka þau og dreifa umferðinni betur yfir daginn. Osló og London hafa reynt þetta með góðum árangri.

Loks er komin áætlun um samgöngur sem leggur ekki minni áherslu á almenningssamgöngur en einkabílinn. Áætlun sem er góð fyrir Reykjavík. Við getum endurhannað Miklubraut. Við getum endurhannað Suðurlandsbraut. Borgarlínan er á fullri ferð. Næsta stopp: Vogabyggð.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×