„Í dag hafa Bandaríkin og Tyrkland sammælst um vopnahlé í Sýrlandi. Tyrkir munu gera hlé á aðgerðum sínum til þess að gefa Kúrdum svæði á því að yfirgefa hið örugga svæði,“ sagði varaforsetinn Mike Pence stuttu fyrir klukkan sex en hann kom til Tyrklands í morgun ásamt Mike Pompeo utanríkisráðherra og Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Þvinganir og harðjaxlabréf
Fundurinn með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta var haldinn í skugga nýsamþykktra viðskiptaþvingana Bandaríkjanna gegn Tyrkjum auk þess að Bandaríkin hörfuðu frá Sýrlandi, rýmdu þannig fyrir innrásinni, eftir símtal Erdogans og Trumps.Önnur samskipti forsetanna tveggja hafa þó verið til umræðu í dag. Bandaríska forsetaembættið staðfesti að bréf Trumps til Erdogans, sem birt var á Twitter, væri ósvikið en þar varaði hann Tyrkjann við því að haga sér eins og harðjaxl. Annars myndu Bandaríkin gjöreyðileggja tyrkneska hagkerfið og Erdogan yrði skráður í sögubækurnar sem djöfull.