Innlent

Hegningarauka krafist við dóminn í Landsréttarmálinu

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Vilhjálmur H VIlhjálmsson lögmaður.
Vilhjálmur H VIlhjálmsson lögmaður. Fréttablaðið/GVA

Tvö sakamál gegn Guðmundi Andra Ástráðssyni, kæranda Landsréttarmálsins, eru nú rekin fyrir íslenskum dómstólum; eitt fyrir Héraðsdómi Suðurlands þar sem Guðmundur neitar sök og annað sem þegar hefur verið dæmt í héraði og er nú rekið fyrir Landsrétti. Í báðum málunum er ákært fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna; sams konar brot og í málinu sem Guðmundur vann gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, í Landsréttarmálinu svokallaða.

Málin tvö varða meint brot sem framin voru áður en dómur var kveðinn upp í málinu sem fór að lokum til MDE. Hegningarlögin mæla fyrir um að í slíkum tilvikum skuli höfða ný mál og dæma hegningarauka við hinn fallna dóm, það er að auka við refsinguna sem búið er að dæma manninn til, í stað þess að kveða upp nýjan dóm með nýrri refsiákvörðun.

„Þetta er enn ein óvissan sem málskotið til yfirdeildarinnar skapar,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Guðmundar, og bætir við: „Það er auðvitað mjög óvenjulegt að dæma hegningarauka við dóm sem fyrir liggur að var ólöglegur samkvæmt dómi Mannréttindadómstólsins. Það er ástæða þess að við förum með þessi mál í gegnum öll dómstigin.“

Aðalmeðferð verður öðru málinu í Landsrétti 14. október og í hinu málinu í Héraðsdómi Suðurlands 21. október.

Vilhjálmur segist ekki geta ímyndað sér hvernig dómstólarnir fari með málin. Nógu snúið sé fyrir réttarkerfið að bregðast við dómi MDE í Landsréttarmálinu en við það bætist nú langt tímabil óvissu meðan beðið er niðurstöðu yfirdeildar.

Búist er við að biðin eftir niðurstöðu yfirdeildar geti orðið tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×