Verktakafyrirtæki í samstarfi við Samtök iðnaðarins hafa stefnt Reykjavíkurborg vegna þess sem þau telja að sé ólögmæt innviðagjöld sem borgin hefur innheimt á undanförnum árum í tengslum við uppbyggingu á húsnæðismarkaði.
Sjá einnig: Stefna Reykjavíkurborg vegna innviðagjalda
„Mér sýnist þarna vera frekar vanhugsuð verktakagræði. Þessi byggingaréttur í Vogabyggð var seldur með skýrum kröfum um að taka þátt í ákveðnum innviðakostnaði, sem var dreift á allar lóðirnar,“ segir borgarstjóri.
„Hverfið hefur mælst vel fyrir og fyrstu íbúðirnar eru komnar á sölu og það er mjög einkennilegt að þá mæti einhverjir verktakar, ætla að hirða allan ágóðann en senda reikninginn, sem þeir eiga að borga með okkur samkvæmt samningi, til borgarbúa og borgarsjóðs.“Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í samtali við Markaðinn að lagaleg óvissa væri til staðar um lögmæti innviðagjaldanna. Borgarstjóri vísar þeim vangaveltum á bug.

„Þá gengur ekki eftir á, þegar einhver hafa keypt þessar lóðir, að verktakarnir vilji hlaupa frá sínum hluta af samningunum en senda reikninginn á borgarbúa.“
Fengu lóðirnar á sanngjörnu verði
Fyrrnefndur Sigurður Hannesson sagði að innviðagjöldin hefðu áhrif á byggingarkostnað og hækki mögulega söluverð nýbygginga. Hann tók uppbyggingu í Vogabyggð sem dæmi og segir að innviðagjald á fermetra nemi 23 þúsund krónur sem geri 2,3 milljónir á hverja 100 fermetra íbúð á svæðinu.Aðspurður um hvort ekki sé um of háar upphæðir að ræða segir Dagur að fjárhæðirnar byggi á kostnaðarmati „á þeim innviðum sem var ákveðið að hafa í hverfinu.“ Lóðaverðið hafi tekið mið af því að þeim fylgdi greiðsluskylda á hluta í innviðunum. „Þannig að verktakarnir fengu lóðirnar á mjög sanngjörnu verði.“
Borgarstjóri segist því ekki hafa miklar áhyggjur af því að borgin muni tapa dómsmálinu. „Þetta eru einfaldlega samningar sem voru gerðir og samninga ber að virða. Ég veit ekki alveg hvernig byggingaiðnaðurinn á Íslandi væri ef það verður almenn regla að líta þannig á að samningar séu bara til einhvers konar viðmiðunar.“