Samkvæmt forsendum fjárlaga eru hagspár á einu máli um að hagkerfið vaxi að nýju frá árinu 2020. Einnig segir að efnahagsáföll á fyrri hluta ársins, fall WOW og loðnubrestur, svo dæmi séu tekin, hafi ekki haft víðtæk áhrif. Óvissa ríkir þó í heimsbúskapnum og verri hagþróun meðal helstu viðskiptaríkja Íslands og takmarkanir á alþjóðaviðskiptum geta hamlað innlendum efnahagsbata.
Fjárlagafrumvarpið byggir á hagspá Hagstofunnar frá því í maí. Fram kemur einnig í frumvarpinu að spáin sé bjartsýn í samanburði við spár annarra greiningaraðila. „Vísbendingar eru hins vegar um að vöxtur einkaneyslu geti verið minni í ár en gert er ráð fyrir í spánni þar sem innflutningur neysluvara og bifreiða dróst töluvert saman á fyrri helmingi ársins,“ segir berum orðum í frumvarpi Bjarna Benediktssonar. „Alþjóðlegar hagvaxtarhorfur hafa versnað enn frá framlagningu endurskoðaðrar fjármálastefnu í vor og hættan á niðursveiflu í helstu viðskiptalöndum hefur magnast.“

Willum var sammála um að forsendur fjárlaganna væru stóra málið í frumvarpinu. „Þetta er í raun stóra spurningin sem við þurfum að spyrja okkur að. Ég met að við höfum lagt grunninn vel í endurskoðaðri stefnu sem eykur líkurnar á því að þetta gangi upp og vonandi gerir það það og ég hef fulla trú á því.“
Gagnrýna nýjan urðunarskatt
Stefnt er að því í fjárlagafrumvarpinu að ríkið innheimti um þrjá milljarða með nýjum urðunarskatti á fyrirtæki. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, gagnrýnir þessi áform.„Hætt er við því að innleiðing urðunarskatts endi sem hrein tekjuöflun fyrir ríkissjóð á meðan ekki er brugðist við þeim vanda sem uppi er hvað varðar aðstöðu- og úrræðaleysi við meðhöndlun slíks úrgangs,“ segir Sigurður. „Fyrirtæki og heimili landsins vilja standa sig vel í úrgangsmálum en ekki eru til staðar nauðsynleg úrræði svo hægt sé að farga úrgangi með fullnægjandi hætti hér á landi. Ekki verður séð að urðunarskatturinn leysi þessa stöðu.“