Erlent

Alþjóðaflugvöllur Grænlands breytist í danskan herflugvöll

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá flugvellinum í Kangerlussuaq.
Frá flugvellinum í Kangerlussuaq. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Grænlensk og dönsk stjórnvöld undirrituðu í dag samkomulag um að danski herinn fái flugvöllinn í Kangerlussuaq til afnota þegar borgaralegt flug flyst þaðan til nýrra alþjóðaflugvalla á Grænlandi. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Kangerlussuaq kallaðist áður Syðri-Straumfjörður. Flugvöllurinn þar er sá eini á Grænlandi sem núna tekur við áætlunarflugi á stórum þotum og notar Air Greenland hann sem tengivöll milli Kaupmannahafnar og byggða Grænlands.

Ein 2.800 metra löng flugbraut er í Kangerlussuaq.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Með gerð nýrra alþjóðaflugvalla í Nuuk og Ilulissat hefur ríkt óvissa um framtíð vallarins í Kangerlussuaq og stefndi í að hann yrði óþarfur og honum jafnvel lokað. Það hefði jafnframt þýtt endalok fimmhundruð manna byggðar, þar sem nánast öll störf tengjast flugstarfseminni. 

Bandaríkjaher byggði flugvöllinn í Syðri-Straumfirði árið 1941 í síðari heimsstyrjöld og notaði hann sem bandaríska herstöð allt til ársins 1992.

Gamlar byggingar bandaríska hersins eru núna hluti af íbúðabyggðinni í Kangerlussuaq.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
En núna hefur áframhaldandi rekstur flugvallarins verið tryggður með samningi sem utanríkisráðherra Grænlands, Ane Lone Bagger, og varnarmálaráðherra Danmerkur, Trine Bramsen, undirrituðu í dag. Samkvæmt honum mun danski herinn taka við rekstri vallarins þegar nýju flugvellirnir verða tilbúnir árið 2023. 

Danski varnarmálaráðherrann segir í yfirlýsingu að þetta tryggi að herinn geti sinnt sínum verkefnum í og við Grænland. Þetta sé mikilvæg ákvörðun og sýni að norðurslóðir séu forgangsmál hjá Dönum. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Bandaríkin blanda sér í flugvallamál Grænlands

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur lýst yfir vilja til að taka þátt í flugvallauppbyggingu Grænlands í því skyni að styrkja stöðu Bandaríkjanna og NATO á norðurslóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×