Skoðun

Rekstur í Reykjavík

Katrín Atladóttir skrifar
Öflugt atvinnulíf er grundvallarforsenda velsældar. Atvinnulífið þrífst ekki án hvata og fyrirtæki dafna ekki án svigrúms til fjárfestinga og hagnaðar. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru jafn mikilvæg í samhengi hlutanna og þau stóru. Þau skapa 73% af rúmlega 150.000 störfum á almennum vinnumarkaði og greiða 69% af laununum. Háir skattar og íþyngjandi reglur erfiða rekstur þeirra. Flestir greiningaraðilar eru sammála um að veturinn verður rekstraraðilum þungur, þá sérstaklega þeim sem þjónusta ferðamenn. Við höfum nú þegar séð fréttir af veitingastöðum í Reykjavík sem leggja upp laupana í hrönnum, jafnvel staði sem átt hafa fastan stað í borginni í fjölda ára.

Vandinn er margþættur. Rekstraraðilar nefna langar kjaraviðræður og miklar launahækkanir. Hækkun á hráefniskostnaði, fækkun ferðamanna, framkvæmdir, slæma upplýsingagjöf frá Reykjavíkurborg, þunga og svifaseina stjórnsýslu og slæmt aðgengi. Íþyngjandi regluverk og flókna skriffinnsku, tafir við að fá rekstrarleyfi. Framkvæmdir sem dragast á langinn leiða til þess að enginn kemst um, hvorki akandi né gangandi, og verulegur skortur er á samráði við rekstraraðila.

Ríflega helmingur af verðmæti atvinnuhúsnæðis landsins er í Reykjavík. Þar er álagningarprósenta fasteignaskatts í lögbundnu hámarki. Hækkun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu nemur ríflega 65% frá árinu 2014 til 2019. Fyrirtækin í borginni hafa ekki notið vaxtar í rekstri sínum í líkingu við hækkun fasteignagjalda undanfarin misseri. Fasteignagjöld eru langstærsti útgjaldaliður félaga sem leigja út atvinnuhúsnæði, um 70% af rekstrarkostnaði þeirra. Þessi hækkun á fasteignamati síðustu ára leiðir til hækkunar leiguverðs. Meirihlutinn felldi tillögu Sjálfstæðisflokksins um að lækka þá strax á þessu ári.

Vandi fyrirtækja í Reykjavík er margþættur en hann steðjar að núna, ekki seinna. Mótvægisaðgerðir þurfa því einnig að eiga sér stað núna. Hið jákvæða er að borgin getur strax brugðist við til að létta undir með þeim. Hægt er að bæta upplýsingagjöf, samráð við rekstraraðila þegar kemur að framkvæmdum, einfalda ferla og lækka skatta. Þetta þarf að ráðast í núna, ekki síðar þegar það er of seint.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×