Erlent

Hand­tekinn grunaður um að hafa tekið mynd­bönd upp undir pils yfir 500 kvenna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Talið er að maðurinn hafi tekið myndböndin nánast á hverjum degi frá því í fyrrasumar. Lögregla segir hann hafa tekið myndböndin nálægt neðanjarðarlestarstöðvum og matvörumörkuðum í grennd við þær.
Talið er að maðurinn hafi tekið myndböndin nánast á hverjum degi frá því í fyrrasumar. Lögregla segir hann hafa tekið myndböndin nálægt neðanjarðarlestarstöðvum og matvörumörkuðum í grennd við þær. vísir/epa
Lögreglan í Madríd hefur handtekið 53 ára gamlan mann frá Kólumbíu sem grunaður er um að hafa tekið myndbönd upp undir pils yfir 500 kvenna án þeirra leyfis þegar þær ferðuðust um í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar.

Maðurinn tók myndböndin með farsíma sem hann faldi í bakpoka sínum. Að sögn lögreglu setti hann síðan að minnsta 283 myndbönd á klámsíður á internetinu þar sem horft var á þau meira en milljón sinnum.

Lögreglan telur að fórnarlömb mannsins séu að minnsta kosti 555, sum þeirra eru stúlkur undir lögaldri.

Talið er að maðurinn hafi tekið myndböndin nánast á hverjum degi frá því í fyrrasumar. Lögregla segir hann hafa tekið myndböndin nálægt neðanjarðarlestarstöðvum og matvörumörkuðum í grennd við þær.

Þá á hann að hafa fylgt konum eftir og jafnvel kynnt sig fyrir þeim til þess að komast nær þeim og ná betri myndum.

Maðurinn var handtekinn þar sem hann var að taka myndband í neðanjarðarlestarkerfinu. Við húsleit heima hjá honum fannst fartölva og þrjú drif með hundruðum myndbanda. Hinn grunaði sætir nú gæsluvarðhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×