Sæstrengjasteypa Bjarni Már Magnússon skrifar 31. júlí 2019 07:00 Að undanförnu hefur verið áberandi kenning um að við innleiðingu þriðja orkupakkans verði íslenska ríkið skuldbundið til að leyfa lagningu sæstrengs sem flytur raforku til annars ríkis. Þar að auki hefur verið haldið fram að reyni íslenska ríkið að standa í vegi fyrir því að sæstrengur verði lagður muni annaðhvort Eftirlitsstofnun EFTA höfða samningsbrotamál gegn íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum eða höfðað verði mál fyrir íslenskum dómstól sem leiti álits EFTA-dómstólsins um samningsbrot. Það mál muni tapast og íslenska ríkinu gert að greiða skaðabætur þar sem orka hefur verið skilgreind sem vara (síðan fyrsti orkupakkinn var innleiddur) og EES-samningurinn geri ráð fyrir frjálsu flæði á vörum innan EES-svæðisins. Þessar kenningar eru firra. Ekkert í orkupakkanum Þriðji orkupakkinn fjallar ekki um skyldu aðildarríkja EES til að koma á eða leyfa samtengingu um flutning orku sín á milli, m.ö.o. hann fjallar ekki um sæstrengi sem flytja raforku. Synjun eða höfnun orkupakkans hefur því engin bein áhrif á hvort lagður verði slíkur sæstrengur eða ekki. Ein meginstoð EES-samningsins er frjálst flæði vöru. Þrátt fyrir að rafmagn sé skilgreint sem vara leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að sérhvert ríki eða einkaaðili á EES-svæðinu geti lagt sæstreng hingað til lands og tengst íslenska raforkukerfinu án þess að íslenska ríkið ráði neinu þar um. Túlkunarreglur þjóðaréttar Í þessu samhengi verður að hafa í huga að EES-samningurinn er milliríkjasamningur. Í 31. gr. Vínarsamningsins um milliríkjasamninga (e. Vienna Convention on the Law of Treaties) frá árinu 1969 eru að finna helstu túlkunarreglur þjóðaréttar. Ísland er ekki aðili að samningnum en er bundið af umræddu ákvæði þar sem það telst þjóðréttarvenja. Í 1. mgr. 31. gr. kemur fram meginreglan að milliríkjasamningur skuli túlkaður í góðri trúi í samræmi við hefðbundna merkingu orðanna sem koma fyrir í honum í samhengi við og í ljósi markmiðs og tilgangs hans. Það er afar langsótt að finna skyldu til lagningar sæstrengs í hefðbundinni merkingu þeirra orða sem koma fyrir í ákvæðum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga enda ekkert minnst á slíka skyldu. Það sem meiru skiptir hér er að í c) lið 3. mgr. 31. gr. kemur fram að við túlkun milliríkjasamninga verði að taka tillit til hverrar þeirrar þjóðréttarreglu sem er í gildi á milli samningsaðila. Hafréttarsamningur SÞ Öll aðildarríki EES-samningsins (sem og ESB sjálft) eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982. Taka verður því tillit til hans í þessu samhengi. Af 311. gr. hafréttarsamningsins leiðir að almennt skulu ákvæði annarra samninga, sem aðildarríki hafréttarsamningsins eiga aðild að, að vera í samræmi við hafréttarsamninginn. M.ö.o. hafréttarsamningurinn trónir á toppnum í alþjóðakerfinu að því er varðar þær reglur er gilda á hafinu enda stundum kallaður stjórnarskrá hafsins. Sæstrengir Hafréttarsamningurinn er helsta réttarheimild þjóðaréttar um sæstrengi. Í 79., 87. og 112. gr. hans kemur fram að öllum ríkjum sé heimilt að leggja neðansjávarstrengi og -leiðslur á landgrunnið og á úthafinu í samræmi við nánar tilgreind skilyrði. Það ríkir því töluvert frelsi varðandi lagningu neðansjávarleiðslna og -strengja. Það eru yfirleitt einkaaðilar sem notfæra sér þessi réttindi. Þrátt fyrir orðalag hafréttarsamningsins um að umrædd réttindi tilheyri ríkjum þá er litið svo á að skýra skuli orðalagið á þann veg að það taki jafnframt til einkaaðila í viðkomandi ríki. Slíkur skilningur birtist m.a. í helsta skýringarritinu við samninginn. Hafa verður í huga að hið lögfræðilega landgrunnshugtak er annað en hið náttúruvísindalega. Landgrunnshugtakið í skilningi þjóðaréttar hefst utan landhelgi ríkja, þ.e. oftast 12 sjómílum frá svokölluðum grunnlínum. Í 4. mgr. 79. gr. hafréttarsamningsins kemur beinlínis fram að ekkert, í þeim hluta samningsins sem fjallar um landgrunnið, hafi áhrif á rétt strandríkisins til að setja skilyrði vegna strengja eða leiðslna, sem ná inn í land eða landhelgi þess. M.ö.o. ríki ræður því hvort lagður er sæstrengur inn fyrir landhelgi þess. Þessi regla leiðir af fullveldisrétti strandríkja í landhelginni. Engin sæstrengjaskylda Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins. Það þýðir að meginreglan um frjálst flæði vöru leiðir ekki til þess að á íslenska ríkinu hvíli skylda til að heimila lagningu sæstrengs sem flytur rafmagn hingað til lands. Íslenska ríkið getur því ekki orðið skaðabótaskylt af því að synja rétti sem er ekki til staðar. Það er útilokað. Að halda öðru fram er nýlunda í sögu alþjóðasamskipta. Réttur Íslands til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina stendur óhaggaður hvað sem þriðja orkupakkanum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líður. Höfundur er prófessor við lagadeild HR og forstöðumaður Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar HR. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Utanríkismál Þriðji orkupakkinn Bjarni Már Magnússon Mest lesið Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson Skoðun Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta Arent Orri J. Claessen,Viktor Pétur Finnsson Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson Skoðun Þak yfir höfuðið er mannréttindi ekki forréttindi Kristján Þórður Snæbjarnarson Skoðun Skoðun Skoðun Um stöðu íslenskukennslu á Íslandi Kjartan Jónsson skrifar Skoðun Gasa: Löng og torfarin leið til endurreisnar Philippe Lazzarini skrifar Skoðun Pops áttu p? Benedikt S. Benediktsson skrifar Skoðun Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta Arent Orri J. Claessen,Viktor Pétur Finnsson skrifar Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson skrifar Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson skrifar Skoðun Fyrir hvað stöndum við? Brynja Hallgrímsdóttir skrifar Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson skrifar Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson skrifar Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Þak yfir höfuðið er mannréttindi ekki forréttindi Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar Skoðun Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson skrifar Skoðun Við erum að vinna fyrir þig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir skrifar Skoðun Sofandaháttur Íslands í nýrri iðnbyltingu Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Byggjum fyrir síðustu kaupendur Friðjón R. Friðjónsson skrifar Skoðun Það sem við segjum er það sem við erum Guðný Björk Pálmadóttir skrifar Skoðun Óásættanleg bið, fordómar og aðrar hindranir í kerfinu Helga F. Edwardsdóttir skrifar Skoðun Má bjóða þér einelti? Linda Hrönn Bakkmann Þórisdóttir skrifar Skoðun Fyrir hverja eru ákvarðanir teknar? Helga Þórisdóttir skrifar Skoðun Þá var „útlendingur“ ekki sá sem kom frá framandi heimsálfum Martha Árnadóttir skrifar Skoðun Kann barnið þitt að hjóla? Sara Björg Sigurðardóttir skrifar Skoðun Er ég Íslendingur? En þú? Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Samkeppni um hagsæld Ríkarður Ríkarðsson skrifar Skoðun Inngilding – eða aðskilnaður? Jasmina Vajzović Crnac skrifar Skoðun Húsnæðispakki fyrir unga fólkið og framtíðina Anna María Jónsdóttir skrifar Skoðun Þegar úrvinnsla eineltismála klúðrast Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Virðum réttindi intersex fólks Daníel E. Arnarsson skrifar Skoðun Ha ég? Já þú! Ekki satt! Hver þá? Arna Sif Ásgeirsdóttir skrifar Sjá meira
Að undanförnu hefur verið áberandi kenning um að við innleiðingu þriðja orkupakkans verði íslenska ríkið skuldbundið til að leyfa lagningu sæstrengs sem flytur raforku til annars ríkis. Þar að auki hefur verið haldið fram að reyni íslenska ríkið að standa í vegi fyrir því að sæstrengur verði lagður muni annaðhvort Eftirlitsstofnun EFTA höfða samningsbrotamál gegn íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum eða höfðað verði mál fyrir íslenskum dómstól sem leiti álits EFTA-dómstólsins um samningsbrot. Það mál muni tapast og íslenska ríkinu gert að greiða skaðabætur þar sem orka hefur verið skilgreind sem vara (síðan fyrsti orkupakkinn var innleiddur) og EES-samningurinn geri ráð fyrir frjálsu flæði á vörum innan EES-svæðisins. Þessar kenningar eru firra. Ekkert í orkupakkanum Þriðji orkupakkinn fjallar ekki um skyldu aðildarríkja EES til að koma á eða leyfa samtengingu um flutning orku sín á milli, m.ö.o. hann fjallar ekki um sæstrengi sem flytja raforku. Synjun eða höfnun orkupakkans hefur því engin bein áhrif á hvort lagður verði slíkur sæstrengur eða ekki. Ein meginstoð EES-samningsins er frjálst flæði vöru. Þrátt fyrir að rafmagn sé skilgreint sem vara leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að sérhvert ríki eða einkaaðili á EES-svæðinu geti lagt sæstreng hingað til lands og tengst íslenska raforkukerfinu án þess að íslenska ríkið ráði neinu þar um. Túlkunarreglur þjóðaréttar Í þessu samhengi verður að hafa í huga að EES-samningurinn er milliríkjasamningur. Í 31. gr. Vínarsamningsins um milliríkjasamninga (e. Vienna Convention on the Law of Treaties) frá árinu 1969 eru að finna helstu túlkunarreglur þjóðaréttar. Ísland er ekki aðili að samningnum en er bundið af umræddu ákvæði þar sem það telst þjóðréttarvenja. Í 1. mgr. 31. gr. kemur fram meginreglan að milliríkjasamningur skuli túlkaður í góðri trúi í samræmi við hefðbundna merkingu orðanna sem koma fyrir í honum í samhengi við og í ljósi markmiðs og tilgangs hans. Það er afar langsótt að finna skyldu til lagningar sæstrengs í hefðbundinni merkingu þeirra orða sem koma fyrir í ákvæðum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga enda ekkert minnst á slíka skyldu. Það sem meiru skiptir hér er að í c) lið 3. mgr. 31. gr. kemur fram að við túlkun milliríkjasamninga verði að taka tillit til hverrar þeirrar þjóðréttarreglu sem er í gildi á milli samningsaðila. Hafréttarsamningur SÞ Öll aðildarríki EES-samningsins (sem og ESB sjálft) eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982. Taka verður því tillit til hans í þessu samhengi. Af 311. gr. hafréttarsamningsins leiðir að almennt skulu ákvæði annarra samninga, sem aðildarríki hafréttarsamningsins eiga aðild að, að vera í samræmi við hafréttarsamninginn. M.ö.o. hafréttarsamningurinn trónir á toppnum í alþjóðakerfinu að því er varðar þær reglur er gilda á hafinu enda stundum kallaður stjórnarskrá hafsins. Sæstrengir Hafréttarsamningurinn er helsta réttarheimild þjóðaréttar um sæstrengi. Í 79., 87. og 112. gr. hans kemur fram að öllum ríkjum sé heimilt að leggja neðansjávarstrengi og -leiðslur á landgrunnið og á úthafinu í samræmi við nánar tilgreind skilyrði. Það ríkir því töluvert frelsi varðandi lagningu neðansjávarleiðslna og -strengja. Það eru yfirleitt einkaaðilar sem notfæra sér þessi réttindi. Þrátt fyrir orðalag hafréttarsamningsins um að umrædd réttindi tilheyri ríkjum þá er litið svo á að skýra skuli orðalagið á þann veg að það taki jafnframt til einkaaðila í viðkomandi ríki. Slíkur skilningur birtist m.a. í helsta skýringarritinu við samninginn. Hafa verður í huga að hið lögfræðilega landgrunnshugtak er annað en hið náttúruvísindalega. Landgrunnshugtakið í skilningi þjóðaréttar hefst utan landhelgi ríkja, þ.e. oftast 12 sjómílum frá svokölluðum grunnlínum. Í 4. mgr. 79. gr. hafréttarsamningsins kemur beinlínis fram að ekkert, í þeim hluta samningsins sem fjallar um landgrunnið, hafi áhrif á rétt strandríkisins til að setja skilyrði vegna strengja eða leiðslna, sem ná inn í land eða landhelgi þess. M.ö.o. ríki ræður því hvort lagður er sæstrengur inn fyrir landhelgi þess. Þessi regla leiðir af fullveldisrétti strandríkja í landhelginni. Engin sæstrengjaskylda Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins. Það þýðir að meginreglan um frjálst flæði vöru leiðir ekki til þess að á íslenska ríkinu hvíli skylda til að heimila lagningu sæstrengs sem flytur rafmagn hingað til lands. Íslenska ríkið getur því ekki orðið skaðabótaskylt af því að synja rétti sem er ekki til staðar. Það er útilokað. Að halda öðru fram er nýlunda í sögu alþjóðasamskipta. Réttur Íslands til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina stendur óhaggaður hvað sem þriðja orkupakkanum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líður. Höfundur er prófessor við lagadeild HR og forstöðumaður Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar HR.