Erlent

Standa vörð um Huawei-bann

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mitt Romney þingmaður. 
Nordicphotos/AFP
Mitt Romney þingmaður. Nordicphotos/AFP Nordicphotos/AFP
Öldungadeildarþingmenn úr flokkum bæði Demókrata og Repúblikana í Bandaríkjunum lögðu í gær fram frumvarp sem myndi meina ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta að heimila viðskipti við kínverska tæknirisann Huawei án samþykkis þings.

Þá myndi frumvarpið einnig koma í veg fyrir að viðskiptamálaráðuneytið fjarlægði Huawei af svokölluðum svörtum lista en bannað er að stunda viðskipti með bandaríska tækni, vörur eða þjónustu við fyrirtæki á listanum.

Trump setti bannið á fyrr á árinu eftir langa umræðu og fjölda ásakana bandarískra þjóðaröryggisstofnana um að Huawei stundaði njósnir fyrir kínversk stjórnvöld. Því hefur fyrirtækið alla tíð neitað.

Undanfarnar vikur hefur Trump ýjað að því að banninu yrði hugsanlega aflétt ef Kína og Bandaríkin samþykkja nýjan viðskiptasamning.

„Við þurfum að standa saman gegn þeirri ógn sem steðjar að bandarísku þjóðaröryggi, hugverkum og tækni vegna Kína. Frumvarpið okkar mun meina bandarískum fyrirtækjum að stunda viðskipti við Huawei svo lengi sem fyrirtækið telst ógn við þjóðaröryggi,“ sagði Repúblikaninn og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn Mitt Romney.

Tim Cotton, samflokksmaður Romneys, sagði Huawei síður en svo hefðbundinn viðskiptafélaga. „Það er leppur fyrir kínverska Kommúnistaflokkinn. Frumvarpið okkar styður við ákvörðun forsetans um að setja Huawei á svarta listann. Bandarísk fyrirtæki ættu ekki að selja óvinum okkar verkfæri til þess að njósna um bandarískan almenning.“




Tengdar fréttir

Hóta hefndum vegna Huawei-banns

Bandaríkjaforseti mun setja bann við viðskiptum við kínverska tæknirisann Huawei með nýrri forsetatilskipun. Utanríkisráðuneyti Kína kveðst undirbúa gagnaðgerðir.

Svört staða Huawei en ekki ómöguleg

Kínverski tæknirisinn getur ekki lengur stundað viðskipti við afar mikilvæga samstarfsaðila vegna banns Bandaríkjaforseta. Missir Android-stýrikerfið og mikilvæga örflöguhönnun. Forstjóri Huawei í Svíþjóð kveðst vongóður um að deilan verði leyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×