Skoðun

Grundvöllur lífskjara

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Aldarfjórðungur er liðinn síðan EES-samningurinn tók gildi á Íslandi. Samningurinn hefur reynst vera einn mikilvægasti samningur sem Ísland hefur gert á lýðveldistímanum. Hann hefur opnað atvinnulífi aðgang að mikilvægu markaðssvæði, tryggt frjálsara flæði vara, fjármagns og þjónustu auk þess að tryggja okkur rétt til búsetu, atvinnu og náms í öðrum ríkjum. Samningurinn færði okkur úr gjaldeyrishöftum sem höfðu þá varað í rúm 60 ár hér á landi. Íslendingar hafa notið ríkulega af kostum EES. Á tíma samningsins hafa landsframleiðsla og ráðstöfunartekjur einstaklinga aukist umtalsvert samhliða stórauknum útflutningi. Landsframleiðsla á mann, sem er mælikvarði á efnahagslega velmegun, hefur aukist um 71% á tíma samningsins.

Lífsgæði Íslendinga byggja á frjálsum viðskiptum við önnur lönd. Með minni viðskiptahindrunum aukast viðskipti. EES-samningnum hafa fylgt aukin viðskipti milli Íslands og EES-svæðisins. Hlutur aðildarlanda samningsins í vöruútflutningi Íslendinga hefur vaxið umtalsvert og er nú um 80%. Útflutningur vöru og þjónustu frá Íslandi hefur meira en þrefaldast á tíma samningsins. Aukin utanríkisviðskipti hafa síðan aukið hagvöxt og velmegun til heilla fyrir fyrirtæki og heimili í landinu.

Frjálst flæði vinnuafls innan EES-svæðisins hefur opnað aðgang að margfalt stærri vinnumarkaði. Mikill meirihluti þeirra 37.000 erlendra launamanna sem starfa hér kemur frá EES. Án þeirra væru lífsgæði okkar allra lakari og mannlíf okkar fábreyttara. EES hefur gert innlendum fyrirtækjum kleift að takast betur á við sveiflur í sinni starfsemi. Samningurinn hefur hjálpað til við sveiflujöfnun hagkerfisins – dregið úr verðbólgu á tíma uppsveiflu og aukningu atvinnuleysis í niðursveiflu. Með EES hefur fjöldi Íslendinga fengið tækifæri til að læra og starfa í EES-ríkjum og aflað sér þannig mikilvægrar þekkingar og reynslu.

EES hefur þjónað hagsmunum Íslands mjög vel. Það ætti að vera óumdeilt að samningurinn hefur verið afar mikilvægur fyrir íslenskt atvinnulíf og er hornsteinn okkar alþjóðlegu tengsla. Ég vona að samningurinn verði áfram það afl verðmætasköpunar sem hann hefur verið á síðustu 25 árum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×