Innlent

Einn af hverjum tíu á vinnu­markaði haldinn sjúk­legri streitu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sylvía Hall skrifa
Ætla má að einn af hverjum tíu á vinnumarkaði þjáist af sjúklegri streitu hér á landi en afar mikilvægt er að grípa inn í áður en slíkt gerist, að sögn geðlæknis. Hann segir að almennt sé streita að aukast og margt bendi til þess að ástandið hér og sé svipað og í Bandaríkjunum þar sem rætt er um að streitufaraldur geysi.

„Við getum ekki litið fram hjá streitu í samfélagi okkar og þeim áhrifum sem hún hefur á fólk með sorglegum afleiðingum. Lífslíkur í Bandaríkjunum minnka hraðar en í nokkru öðru þróuðu ríki í veröldinni. Við drekkum meira, offita er sem faraldur og kvíðastreita er óviðráðanleg.“

Þetta kemur fram í heimildarmynd sem verður sýnd á Stöð 2 í kvöld um streitufaraldurinn í Bandaríkjunum. Geðlæknir hjá Forvörnum og Streituskólanum telur að ástandið sé svipað hér á landi.

„Það er ekki til mikið af viðamiklum rannsóknum á streitu á Íslandi en það er margt sem bendir til þess að þetta sé svipað hjá okkur eins og er í Evrópu og í Bandaríkjunum. Tíðnin er að aukast og er há.“

Ólafur segir afa mikilvægt að grípa strax inn í ef fólki grunar að það sé haldið of mikilli streitu og áður en kemur til sjúklegrar streitu sem sé í raun heilasjúkdómur.

„Sjúkdómsgreining þar sem að hafa myndast langvinn og alvarleg einkenni frá heila, í raun heilasjúkdómur,“ segir Ólafur.

Rannsóknir hafi sýnt að um einn af hverjum tíu á vinnumarkaði sé haldin sjúklegri streitu en einkenni eru til dæmis sífelld þreyta og minnisleysi. Ef fólk bregðist fljótt og hvílist og hreyfi sig séu batahorfur góðar en það taki lengri tíma að ná sér ef streitan sé orðin sjúkleg. Ráðgjafi segir hvíldina afar mikilvæga.

„Það sem þarf kannski að gera til að byrja með er svolítið að núllstilla einstaklinginn, skoða hvernig er með svefninn, það er yfirleitt fyrsta atriðið sem þarf að skoða,“ segir Elín Blöndal, ráðgjafi hjá Streitumóttökunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×