Dómur yfir manni sem ákærður var í byrjun árs fyrir tilraun til manndráps verður kveðinn upp í héraðsdómi Norðurlands eystra á morgun. Málið var endurflutt fyrir helgi vegna þess hve langt er liðið frá því aðalmeðferð fór fram í málinu.
Aðalmeðferð málsins fór fram 11. mars síðastliðinn, fyrir 15 vikum, en samkvæmt viðmiðunarreglum um málshraða er miðað við að dómur sé kveðinn upp í málum innan fjögurra vikna frá aðalmeðferð.
Dómsuppsaga í málinu var á dagskrá dómsins 6. maí síðastliðinn en var frestað vegna veikinda.
Ákærða er gefið að sök að hafa stungið annan mann ítrekað fyrir utan hraðbanka í miðbæ Akureyrar 3. nóvember síðastliðinn. Brotaþolinn hlaut fjölda stungusára og skurða um andlit og líkama og tvö höfuðkúpubrot í árásinni. Hann fer fram á rúmar 5 milljónir í bætur úr hendi ákærða.
Verði ákærði fundinn sekur á hann yfir höfði sér fangelsisdóm en samkvæmt dómaframkvæmd er algeng refsing fyrir tilraun til manndráps fimm ár í fangelsi.

