Innlent

Pollró­legur yfir reiðum Tyrkjum á Twitter: „Ég ætla ekkert að breyta um lög­heimili“

Sylvía Hall skrifar
Ónefndi maðurinn með uppþvottaburstann er ekki Benedikt Grétarsson.
Ónefndi maðurinn með uppþvottaburstann er ekki Benedikt Grétarsson. Twitter
Benedikt Grétarsson, íþróttafréttamaður, varð fyrir slysni sameiginlegur óvinur margra Tyrkja á Twitter í gærkvöldi eftir að tyrkneski blaðamaðurinn Murat Özen sagði hann vera manninn sem tók á móti tyrkneska fótboltalandsliðinu með uppþvottabursta í Leifsstöð í gærkvöld.

Ónefndi maðurinn með burstann fylgdi tyrknesku blaðamönnunum eftir og þóttist ætla taka viðtal við Emre Belozoglu með burstanum. Þetta fór öfugt ofan í allmarga stuðningsmenn sem hafa ausið úr skálum reiði sinnar yfir íslenska karlmenn sem þeir telja vera manninn.





„Hvernig hann fékk nafnið mitt hef ég ekki hugmynd um en ég er nú ansi ólíkur þessum manni þannig ég skil ekki alveg hvernig þeir eru að fá þetta út,“ segir Benedikt í samtali við Vísi, pollrólegur yfir þeim þúsundum skilaboða sem honum hafa borist.

„Þetta byrjaði að hrúgast inn fljótlega eftir kvöldmat í gær og ég slökkti á tilkynningum klukkutíma seinna,“ bætir hann við.

Hann segir marga þeirra sem sendu honum skilaboð vera að róast en hann setti sjálfur inn færslu um miðnætti í gær þar sem hann lýsti því yfir að hann væri ekki dularfulli burstamaðurinn.



„Ég vildi óska þess að ég væri 1.90 með fullt af hári“ 

Benedikt kippir sér ekki mikið upp við þann mikla fjölda skilaboða sem honum hafa borist síðustu klukkutímana en skilaboðin hlaupa á tugum þúsunda. Hann segir misjafnt hvort menn taki því trúanlegu að hann sé ekki umræddur maður en sjálfum finnst honum það nokkuð augljóst.

„Ég vildi óska þess að ég væri 1.90 með fullt af hári,“ segir Benedikt léttur.

Hann segist ætla að bíða af sér storminn en það er ljóst að hann er ekki sá eini sem er að verða fyrir reiði tyrknesku stuðningsmannanna. Fleiri dæmi eru um að íslenskir karlmenn á Twitter hafi þurft að læsa aðgangi sínum vegna skilaboða og jafnvel lokað þeim alfarið þar sem áreitið hefur orðið of mikið en Benedikt ætlar ekki að grípa til slíkra ráðstafanna.

„Ég ætla ekkert að breyta um lögheimili eða fara í lýtaaðgerð,“ segir hann og bætir við að þetta hafi verið augljós fylgifiskur þess að nafn hans komst í umræðuna.

Magnús Már Einarsson, íþróttafréttamaður á Fótbolti.net, hefur líka fengið sinn skerf af reiðum stuðningsmönnum og bendir Benedikt á að hann sé í það minnsta töluvert líkari manninum með burstann. Hann eigi þó ekki skilið það áreiti sem þessu fylgi.





„Þetta er orðið frekar þreytt en ég á eftir að líta á þetta seinna og hlæja að þessu seinna meir,“ segir Benedikt. Hann bíði nú spenntur eftir því að fá uppþvottabursta í jólagjöf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×