Innlent

Segir tillögu stjórnlagaráðs ítarlegri og ákveðnari

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Gísli Tryggvason, lögmaður og fyrrum stjórnlagaráðsmaður.
Gísli Tryggvason, lögmaður og fyrrum stjórnlagaráðsmaður. Fréttablaðið/Anton Brink
Formenn stjórnmálaflokkanna birtu í gær tillögur að nýjum stjórnarskrárákvæðum sem varða umhverfisvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Um er að ræða breytingar á tillögum stjórnlagaráðs sem vann að tillögu að nýrri stjórnarskrá Íslands og birt var árið 2011. Ný tillaga gerir nokkrar breytingar á orðalagi sem fela í sér mun rýmri túlkun á ákvæðunum.

Í samtali við fréttastofu sagði Gísli Tryggvason, lögmaður sem sat í stjórnlagaráði, að tillaga stjórnlagaráðs hafa verið mun ítarlegri og ákveðnari að mörgu leyti.

„Það helsta sem vantar í nýtt stjórnarskrárfrumvarp um nýtingu náttúruauðlinda er að nýting skuli veitt gegn fullu gjaldi en í frumvarpi formanna stjórnmálaflokkanna segir aðeins að með lögum skuli kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábótaskyni. Með því getur Alþingi samþykkt mjög lágt gjald og hægt er að ákveða undirverð um sameiginlega nýtingu auðlinda. Þetta hefur verið gert í áratugi til skaða við land og þjóð.“

Auðlindir hafsins

Gísli segir að enn fremur þyrfti að tiltekinn tíma sem nýtingarréttur væri veittur ætti að vera hóflegt, en sagði stjórnlagaráð ekki hafa gengið svo langt að ákveða fjölda ára í tillögu sinni þar sem tímabilið gæti verið mismunandi fyrir mismunandi auðlindir.

Í annarri málsgrein í tillögu stjórnlagaráðs sé einnig tekið fram hvaða náttúruauðlindir falli undir þessi lög, svo sem auðlindir hafs, en kvótahafar hafi löngum haldið því fram að þeir hafi einhverskonar eignarrétt á auðlindinni sem varinn sé af stjórnarskrá. Líta eigi á kvóta af fiskveiðum sem afnotarétt sem borga eigi fullt gjald fyrir og líta eigi á sem leigu en ekki skatt.

„Almannaþjónusta mun aldrei verða almennileg fyrr en fullt gjald verður tekið fyrir auðlindir í þjóðareigu,“ sagði Gísli.

Hann lýsir undrun sinni yfir því að enn sé ekki búið að taka tillögu að stjórnarskrá í gildi sem aukinn meirihluti íslensku þjóðarinnar lýstu stuðningi yfir. Slík framganga við kjósendur myndi ekki viðgangast í öðrum löndum.

Samanburður á tillögu Stjórnlagaráðs að 34. grein og tillögu formanna stjórnmálaflokkanna að 34. grein sem varðar nýtingu náttúruauðlinda. Rauðletruð eru atriði sem ekki er að finna í nýrri tillögu.

Þjóðareign samkvæmt stjórnarskrá

Í greinargerð sem fylgdi tillögu stjórlagaráðs kemur fram:

„Í 2. mgr. eru talin upp dæmi um helstu tegundir auðlinda í þjóðareigu, svo sem nytjastofna í hafinu, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Þessi upptalning er í samræmi við athugasemdir þær sem fylgdu frumvarpi dr. Gunnars Thoroddsen 1983 nema hér er kveðið á um að einnig þessar auðlindir skuli vera í þjóðareign samkvæmt stjórnarskrá frekar en samkvæmt ákvörðun Alþingis. Við bætist ákvæði um að með lögum megi kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. Hér er t.d. átt við hugsanlega olíufundi eða málma djúpt undir hvort heldur í almenningum eða einkajörðum. Upptalningunni er ekki ætlað að vera tæmandi. Til dæmis er ekki tekin afstaða til þess hversu fara skuli með villta lax- og silungsstofna sem ganga úr sjó í ár á einkajörðum. Í því felst sú afstaða að Alþingi skuli kveða á um þau mál.“ 

Samanburður á tillögu stjórnlagaráðs að 33. grein og tillögu formanna stjórnmálaflokkanna að sömu grein. Greinin varðar umhverfisvernd. Rauðletruð eru atriði sem finnast ekki í hinni tillögunni.
Í greinargerð sem fylgdi 33. grein í tillögu stjórnlagaráðs stendur:

„Sérstök grein um vernd náttúrunnar í stjórnarskrá er löngu tímabær og hefur átt sér langan aðdraganda. [...] Stjórnlagaráð hafði til hliðsjónar einróma ákall Þjóðfundar, stjórnlaganefndar, fjölmargra fulltrúa ráðsins sjálfs og margvíslegra hagsmunasamtaka. [...] Ljóst er að ákvæði um umhverfi og náttúru hafa á undanförnum árum ratað í stjórnarskrár æ fleiri erlendra ríkja, og verða ítarlegri og afdráttarlausari. Skilningur á mikilvægi umhverfis fyrir heilbrigði og afkomu mannkyns fer því vaxandi. Ákvæði fjalla yfirleitt um réttindi núlifandi og komandi kynslóða og hefur gætt tilhneigingar til að setja þau meðal mannréttindaákvæða í stjórnarskrám.

Nauðsyn aukinnar verndar

Á þjóðfundi var mjög rætt um náttúru Íslands og þar komu fram sterk viðhorf um nauðsyn aukinnar verndar og sjálfbærni við nýtingu auðlinda og náttúrugæða af öllu tagi til að ekki yrði gengið á rétt náttúrunnar og komandi kynslóða á Íslandi.

Í tillögum stjórnlaganefndar var skylda einnig lögð á herðar almennings með því að kveða á um að hann skyldi „ganga vel um og virða náttúruna“. Er sú hugsun að réttindum fylgi skyldur og ábyrgð raunar rauður þráður í störfum Stjórnlagaráðs og var talið að afar mikilvægt væri að árétta þá hugsun strax í byrjun ákvæðis tengdu umhverfi og náttúru

Í 3. mgr. er fjallað um sjálfbæra nýtingu á náttúruauðlindum og jafnrétti kynslóðanna. Þar er réttur náttúrunnar sjálfur tilgreindur.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×