Íslenski boltinn

Blikar fóru á toppinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Agla María Albertsdóttir.
Agla María Albertsdóttir. Vísir/Vilhelm
Breiðablik tók toppsæti Pepsi Max deildar kvenna, í það minnsta þar til annað kvöld, með sigri á Keflavík í kvöld.

Blikar unnu öruggan þriggja marka sigur suður með sjó. Agla María Albertsdóttir skoraði fyrsta markið undir lok fyrri hálfleiks.

Hildur Antonsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir bættu sínu markinu við áður en Alexandra Jóhannsdóttir nældi í vítaspyrnu. Agla María fór á punktinn en Katrín Hanna Hauksdóttir varði í stöngina.

Lokatölur 3-0 og Blikar eru enn með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Með sigrinum fer Breiðablik á toppinn en Valur getur endurheimt toppsætið með sigri á Stjörnunni á morgun.

Nýliðar Fylkis fara vel af stað í deildinni og unnu 2-1 sigur á KR í leik sem gæti reynst mikilvægur fari svo að liðin endi í baráttunni í neðri hluta deildarinnar.

Hulda Hrund Arnarsdóttir kom heimakonum yfir í Árbænum á 16. mínútu og Ída Marín Hermannsdóttir tvöfaldaði forystuna áður en flautað var til leikhlés.

Í seinni hálfleik klóraði Guðmunda Brynja Óladóttir í bakkann fyrir KR og gestirnir sóttu mikið undir lok leiksins. Jöfnunarmarkið kom hins vegar ekki og annar sigur Fylkis í sumar staðreynd.

Í Kórnum unnu Selfyssingar eins marks sigur þar sem Grace Rapp skoraði eina markið á 81. mínútu.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×