Innlent

Matvælastofnun minnir á bann við dýraáti dýra vegna smithættu

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Svín.
Svín. fréttablaðið/GVA
Borgarfjarðarhreppur hefur ákveðið að fá svín til sín til að farga lífrænum úrgangi sem til fellur í bænum og éta heimilissorp í stað þess að aka því rúma 60 kílómetra til förgunar á Fljótsdalshéraði. Matvælastofnun hefur hins vegar sett strik í reikninginn hvað þetta varðar og segir bannað að gefa svínum dýraafurðir og eldhúsúrgang.

Helgi Hlynur Ásgrímsson er einn forvígismanna þess að fá svín til að éta heimilissorp og telur það ágæta lausn þegar kemur að loftslagsmálum í stað þess að aka sorpi með tilheyrandi mengun. „Því höfum við horft til þess að fá svín til að éta frá okkur lífrænan úrgang og nýta þannig matar­afganga betur,“ segir Helgi Hlynur en Fréttablaðið náði tali af honum í miðjum sauðburði.

Matvælastofnun hefur hins vegar skorist í leikinn og bendir á að fóðrun dýra með dýraafurðum eða eldhúsúrgangi geti haft alvarlegar afleiðingar og segir þetta eina helstu smitleið margra alvarlegra smitsjúkdóma í dýr. „Samkvæmt fóðurlögum og reglugerð um aukaafurðir dýra er bannað að fóðra búfé, að loðdýrum undanskildum, með kjöti og öðrum dýraafurðum öðrum en mjólk og eggjum í ákveðnum tilfellum. Reglurnar banna jafnframt notkun hvers kyns eldhúsúrgangs, bæði frá heimilum og veitingastöðum, sem fóðurs fyrir dýr,“ segir Matvælastofnun.

Helgi Hlynur segir reglurnar vera til trafala. „Auðvitað er þetta eitthvert reglugerðafargan. Við munum reyna að eiga samtal við Matvælastofnun í sumar til að geta hafist handa við þetta verkefni næsta haust,“ segir Helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×