Innlent

VÍS hættir útleigu á barnabílstólum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Viðskiptavinir VÍS geta ekki lengur fengið barnabílstóla á leigu frá tryggingafélaginu.
Viðskiptavinir VÍS geta ekki lengur fengið barnabílstóla á leigu frá tryggingafélaginu. Fréttablaðið/Anton Brink
Tryggingafélagið VÍS ætlar að hætta útleigu á barnabílstólum en félagið hefur boðið viðskiptavinum sínum bílastóla til útleigu fyrir börnin sín undanfarin 25 ár. Þeir viðskiptavinir sem eru með bílstól á leigu geta haldið áfram að leiga hann.

Honum verður þó ekki hægt að skipta út fyrir nýjan stól. Þá fá þeir sem eru á biðlista eftir bílstól hann afhentan á næstunni.

„Foreldrum barna í viðskiptavinahópi VÍS sem nýta sér þessa þjónustu hefur fækkað hlutfallslega undanfarin ár þótt fjöldinn hafi verið svipaður á milli ára eða um 6000 börn. Þegar VÍS hóf útleigu á barnabílstólum fyrir 25 árum sýndu rannsóknir að um 30% af börnum voru laus í bílum auk þess sem aðgengi og úrval af barnabílstólum var lítið. Nú eru innan við 2% barna laus í bílum og aðgengi að vönduðum og öruggum barnabílstólum hefur aukist til muna,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, samskiptastjóri VÍS, í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis.

„Sú þróun sýnir okkur að þörfin á útleiguþjónustu VÍS á barnabílstólum, sem var mikil fyrir 25 árum, er ekki lengur sú sama og því tímabært fyrir félagið að beina kröftum sínum í önnur forvarnar- og öryggisverkefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×