Skoðun

Starfsnám opnar dyr

Sigurður Hannesson skrifar
Mikil tækifæri bíða þeirra stelpna og stráka sem ljúka starfs- og tækninámi. Atvinnulífið bíður starfskrafta þeirra en þorri þeirra félagsmanna Samtaka iðnaðarins sem vilja bæta við sig starfsfólki leitar að starfsmenntuðu fólki. Námið opnar dyr út í heim en starfsnám er viðurkennt innan Evrópu og veitir því útskrifuðum alþjóðlegt gjaldgengi. Þá er einfalt að fara í frekara nám fyrir þau sem það kjósa og er háskólamenntað fólk með starfsnám að baki mjög eftirsótt á vinnumarkaði.

Töfrarnir verða til þar sem handverk og hugvit mætast. Hjá helstu hátæknifyrirtækjum landsins starfar starfs- og tæknimenntað fólk – konur og karlar – og býr til búnað sem seldur er víða um heim. Maðurinn hefur í þúsundir ára unnið með málm og tré, gerir enn og mun áfram gera en störfin hafa sannarlega breyst í áranna rás. Málm- og véltæknigreinar fela í sér vinnu með tölvustýrð verkefni og í hönnunargreinum er sköpunin í fyrirrúmi svo dæmi séu tekin. Möguleikar á starfsnámi eru nær óþrjótandi enda eru um 100 starfsnámsbrautir í boði í framhaldsskólum landsins. Öll ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hlutfallslega hafa mun færri lokið starfsnámi hér á landi en gengur og gerist í nágrannaríkjum. Gjarnan er haft á orði að efla þurfi starfsnám. Staðreyndin er hins vegar sú að starfsnám er heilt yfir gott en okkar eigin viðhorf hafa gert það að verkum að fleirum hefur verið stýrt í bóknám heldur en í starfsnám. Þetta er nú sem betur fer að breytast.

Stefna stjórnvalda birtist með skýrum hætti í fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Efst á blaði varðandi framhaldsskólastigið er að fjölga þeim sem ljúka starfs- og tækninámi. Þetta eru mikil tíðindi því bóknámi hefur hingað til verið gert hærra undir höfði en starfsnámi, einhverra hluta vegna. Einhver bestu meðmæli með þessari stefnumörkun stjórnvalda eru mótmæli einstaka skólamanna í bóknámsskólum. Vor starfsnámsins er runnið upp.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×