Innlent

Fleiri gáttir inn í landið geti dregið úr áföllum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi eru nokkuð bjartsýnir um stöðu ferðaþjónustunnar til langs tíma þrátt fyrir að óvissa sé til staðar eftir gjaldþrot WOW air. Þeir segja að uppbygging á Akureyrarflugvelli og öðrum flugvöllum á landsbyggðinni geti gert ferðaþjónustuna betur í stakk búna til að taka við áföllum.

Á Norðurlandi hefur verið ágætur gangur í ferðaþjónustunni líkt og víða um land undanfarin ár og því ekki óvarlegt að áætla að þar muni áhrifa falls WOW air einnig gæta.

„Við vitum það að það eru einhverjir ferðaþjónustaðilar núna að aðstoða farþega sem hafa lent í vandræðum út af þessu. Einhverjar afbókanir hafa borist, það er ekki mikið,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans 66N sem hefur það að meginmarkmiði að laða að erlendar ferðaskrifstofur og flugfélög til Norðurlands.

Þeir ferðaþjónustuaðilar sem fréttastofa hefur rætt við eru þó sammála um það að til langs tíma séu horfurnar ágætar, þrátt fyrir óvissu til skamms tíma. Þá kalla þeir einnig eftir því að yfirvöld setji sem fyrst fjármagn í uppbyggingu Akureyrarflugvallar sem alþjóðaflugvallar.

Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóriu Flugklasans Air 66NVísir/Tryggvi
„Ég myndi segja að það sé alltaf sterkara fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi að hafa fleiri gáttir inn í landið. Það eru bara fleiri körfur fyrir eggin okkar sem ferðaþjónustan er,“ segir Hjalti Páll.

Alþjóðaflug um flugvöllinn hefur aukist með tilkomu bresku ferðaskrifstofunnar Super Break auk þess sem að von er á beinu flugi frá Hollandi. Flugstöðin ræður þó varla við það þegar 200 sæta þota mætir á svæðið.

„Eins og staðan er núna er aðstaðan sprungin fyrir það sem við höfum. Öll aukning er bara mjög erfið og það er það sem þrengir mest að er akkúrat flugstöðin sjálf. Það er mjög erfitt eða nánast ómögulegt að taka inn millilandaflug á sama tíma og hér er innanlandsflug,“ segir Hjalti Páll.

Hafa farþegar meðal annars þurft að fara í vegabréfaeftirlit í hollum á meðan aðrir farþegar bíða í flugvélinni. Hjalti segir að áfram verði þrýst á stjórnvöld að setja aukið fjármagn í flugvölllinn, það geti skilað sér þegar áföll dynja yfir.

„Hins vegar þegar við lítum heildrænt á þessa stöðu þá er það mikilvægt til framtíðar að við hugsum um út í það að fjölga gáttunum, þá dreifum við ferðamönnunum betur og þá erum við betur í stakk búin til að taka við áföllum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×