Erlent

Ætlar ekki í framboð en er ekki á förum

Samúel Karl Ólason skrifar
Hillary Clinton segir mikið í húfi í komandi forsetakosningum.
Hillary Clinton segir mikið í húfi í komandi forsetakosningum. AP/Kathy Willens
Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og forsetaframbjóðandi, segist ekki ætla að bjóða sig aftur til embættis forseta Bandaríkjanna. Hins vegar segist hún ekki „vera á förum“ og hún ætli að halda áfram vinnu sinni og að berjast fyrir þeim málefnum sem hún trúi á. Þessu lýsti Clinton yfir í viðtali í gærkvöldi en frambjóðendum í forvali Demókrataflokksins fer hratt fjölgandi.



Í áðurnefndu viðtali lýsti Clinton yfir áhyggjum af stöðu stjórnmála í Bandaríkjunum og þá sérstaklega af aukinni skotgrafapólitík og öfgum. Hún sagðist ætla að vinna með frambjóðendum Demókrataflokksins.

„Ég vil vera viss um að fólk skilji að ég ætla að halda áfram að tjá mig. Ég er ekki að fara neitt,“ sagði Clinton.

Hún sagði mikið í húfi í Bandaríkjunum og hefur hún áhyggjur af ástandinu eins og það er. Hún sagðist aldrei hafa séð annað eins ástand í Bandaríkjunum og nú.

„Ég er að velta vöngum yfir því hvernig við byrjum að tala saman og hlusta á hvort annað á nýjan leik.“

Clinton sagðist ekki telja að hún myndi bjóða sig fram til einhvers opinbers embættis á nýjan leik. Hún hefur þó rætt við nokkra af frambjóðendum Demókrataflokksins og ráðlagði þeim að ganga ekki að neinu vissu í komandi kosningum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×