Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir róttækra aðgerða þörf til að auka aðsókn í kennaranám og bæta starfsumhverfi kennara. Ráðherrann ætlar að breyta námsfyrirkomulaginu þannig að starfsnám kennara á fimmta ári verði launað og búa þannig um hnútana að Lánasjóður íslenskra námsmanna greiði sértæka styrki til kennaranema. „Hugmyndin er að það verði fjárhagslegur hvati úr Lánasjóðnum í afmarkaðan tíma til þess að auka aðsóknina í námið.“
Aðspurð segir hún aðgerðina ekki endilega þurfa að fela í sér mismunun gagnvart nemendum í öðrum greinum. Norðmenn hafi svipað fyrirkomulag um kennaranámið sem hafi mælst vel fyrir. Lilja stefnir á að lagafrumvarp um efnið verði klárt næsta haust. Þá vinni aðgerðahópur sem Lilja skipaði á dögunum að því að bæta starfsumhverfið, almennt.
„Það er alveg ljóst að þróunin undanfarin ár er ískyggileg. Aðsókn í kennaranám hefur verið að minnka og þótt við höfum séð vísbendingar um smávægilega aukningu í námið á vorönn í fyrra þá er ljóst að fjöldi brautskráðra kennara er ekki nægur til þess að mæta nýliðun á öllum skólastigum. Auk þess er brottfall úr náminu mikið og námsframvinda kennaranema hæg. Við erum að horfa fram á kennaraskort og það er grafalvarlegt mál,“ segir Lilja.
Nýlegar tölur Hagstofunnar um hækkandi hlutfall leiðbeinenda í grunnskólum eru vísbending um að kennaraskortur sé þegar farinn að segja til sín. Samkvæmt ársskýrslu undanþágunefndar grunnskóla skólaárið 2017 til 2018 voru 434 umsóknir um undanþágu til þess að kenna í grunnskólum án tilskilinna leyfa teknar til afgreiðslu nefndarinnar. Þá er meðalaldur starfandi kennara hár og útlit fyrir að margir reynslumiklir kennarar muni brátt hverfa frá kennslu vegna aldurs.
