Körfubolti

Helena stórkostleg í endurkomunni á Ásvelli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Helena Sverrisdóttir er uppalin hjá Haukum en fór í Val þegar hún kom heim úr atvinnumennsku fyrr í vetur
Helena Sverrisdóttir er uppalin hjá Haukum en fór í Val þegar hún kom heim úr atvinnumennsku fyrr í vetur Vísir/Bára
Valskonur völtuðu yfir Hauka í endurkomu Helenu Sverrisdóttur á Ásvelli. Skallagrímur hafði betur gegn Blikum í mikilvægum leik í botnbaráttunni í Domino's deild kvenna.

Valur hefur verið á mikilli siglingu og vann liðið sinn sjötta leik í röð í kvöld þegar Valskonur unnu 83-60 sigur á Haukum í Schenkerhöllinni.

Helena fór á kostum gegn uppeldisfélagi sínu og skoraði 30 stig, tók 11 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Heather Butler bætti við 16 stigum fyrir Val í öruggum sigri.

Eftir nokkuð jafnan fyrsta leikhluta vann Valur annan leikhlutann með átta stigum og var staðan 25-36 í hálfleik. Haukar náðu að halda í við Val í þriðja leikhluta en gestirnir keyrðu yfir Haukana í fjórða leikhluta.

Í Borgarnesi mættust Skallagrímur og Blikar í mikilvægum fallbaráttuslag. Blikar voru fyrir leikinn á botninum með tvö stig, Skallagrímur með átta stig líkt og Haukar.

Heimakonur í Skallagrími unnu fyrri hálfleikinn örugglega og var staðan 50-33 í hálfleik. Skallagrímur jók forystu sína í þriðja leikhluta og fyrir síðasta fjórðunginn var staðan orðin 74-48 og ljóst að leikurinn var úti.

Blikar unnu síðasta fjórðunginn og náðu að laga stöðuna en þær komust þó ekki nær en 84-74.

Breiðablik fer að renna út á tíma að tryggja sér áframhaldandi veru í deild þeirra bestu, liði hefur aðeins unnið einn leik af fimmtán á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×